138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[13:30]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum fjölmörg hér á þingi og utan þings sem höfum krafist þess í marga mánuði að stjórnvöld grípi til aðgerða sem bæta hag skuldsettra heimila. Því miður voru litlar undirtektir við þessar kröfur okkar. Viðbrögð við þeim létu á sér standa þar til bankarnir á fundi félags- og tryggingamálanefndar upplýstu að um 20% heimila væru í vanskilum með lán sín. Eftir þessa yfirlýsingu fór í gang mikil vinna framkvæmdarvaldsins við að leysa úr vanda skuldara, vanda sem hefði þurft marga mánuði til að leysa, til þess að finna viðunandi lausnir á vandanum. Með öðrum orðum, dýrmætur tími fór forgörðum vegna pólitískra átaka um leiðir og ég harma það.

Það hefur verið okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ákveðið keppikefli að tryggja stöðu skuldara gagnvart lánastofnunum þegar gripið er til sértækrar skuldaaðlögunar eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Margir einstaklingar og fyrirtæki hafa nú þegar kvartað yfir meðhöndlun bankanna á skuldavandanum. Við fögnum því að koma eigi á fót sérstakri eftirlitsnefnd til að kanna hvort lánastofnanir beiti samræmdum reglum við skuldaaðlögun. Auk þess ber að fagna sérstaklega ákvæði í nefndarálitinu þar sem ráðherra lofar eða er skikkaður til þess að koma á fót nefnd sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka, sérfræðingar og hagsmunaaðilar. Ég lagði til að slík nefnd yrði sett á fót í byrjun sumars við umræðu í þinginu um skuldavanda heimilanna sem framsóknarmenn höfðu frumkvæði að. Hugmyndin fékk því miður mjög litlar undirtektir meðal stjórnarliða og harma ég það.

Frumvarpið sem nú stendur til að samþykkja ber merki þess að hafa verið unnið í miklum flýti og án fullnægjandi samráðs við hagsmunaaðila. Skipun nefndar með hagsmunaaðilum, sérfræðingum og fulltrúum flokkanna mun því bæta úr þessum veigamikla veikleika frumvarpsins. Verkefni þessarar nefndar á m.a. að verða að koma á fót umboðsmanni skuldara, sem við í Vinstri grænum settum á oddinn við breytingar á frumvarpi ráðherra. Reyndar er þess getið að þessu embætti umboðsmanns skuldara þurfi ekki að koma á fót fyrr en með vorinu en ég hvet ráðherra til að flýta þeirri vinnu og tryggja að því verði komið á fót strax í næsta mánuði eða áður en lánastofnanir fara í skuldaaðlögun lána heimilanna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiðslubyrði verðtryggðra lána verði lækkuð með því að lögbinda almenna greiðslujöfnun. Síðan er lánastofnunum gert að beita sértækri skuldaaðlögun fyrir fyrirtæki og heimili í miklum skuldavanda. Greiðslujöfnun mun bjarga mörgum heimilum sem nú eru að kikna undan greiðslubyrðinni en leysir hins vegar ekki vanda þeirra sem eru með yfirveðsettar eignir, vandamál sem kollegi minn, hv. þm. Þór Saari, benti á hér fyrr í morgun.

Ástæðan fyrir því að þetta frumvarp og leiðin sem það leggur til að verði farin til að lækka greiðslubyrðina dregur ekki úr vanda þeirra sem eru með veðsettar eignir er sú að upphæðin sem fer á jöfnunarreikning verður meðhöndluð sem hækkun á skuldinni. Auk þess óttast ég að greiðslujöfnun muni fjölga þeim sem sitja uppi með yfirveðsettar eignir. Það er mjög mikilvægt að taka á þessu vandamáli hvað varðar yfirveðsettar eignir til að tryggja sveigjanleika á vinnumarkaði og einnig til að gera fólki kleift að losna við eignir sem henta fjölskyldunni ekki lengur.

Mikilvægt er að lækkun á greiðslubyrði lána taki gildi strax 1. nóvember þar sem mörg heimili eru komin fram á bjargbrún hvað varðar greiðslugetu. Ég mun því samþykkja þetta frumvarp en í þeirri trú að ríkisstjórnin muni fljótlega leggja til aðgerðir til að taka á vandamálinu við yfirveðsettar fasteignir, taka á verðtryggingunni og afnema hana og taka á réttarstöðu skuldara þannig að hún verði bætt. Það er nauðsynlegt að afnema verðtrygginguna hið allra fyrsta og bjóða fasteignaeigendum óverðtryggð lán með möguleika á að festa nafnvexti í fimm ár til að dreifa áhættunni betur milli lántaka og lánveitenda.

Ljóst er að það verða miklar verðhækkanir á næstunni þar sem Seðlabanki Íslands hefur tilkynnt að afnema eigi gjaldeyrishöftin og einnig eru boðaðar skattahækkanir til þess að brúa fjárlagahallann. Höfuðstóll fasteignalána sem ekki eru greiðslujöfnuð mun því hækka á næstunni og það mun síðan leiða til hækkunar á greiðslubyrði fólks. Því tel ég brýnt að farið verði í aðgerðir til þess að afnema verðtrygginguna hvort sem hún er gerð í formi neysluverðsvísitölu eða gengisjöfnunarvísitölu.

Það er jafnframt brýnt að bæta réttarstöðu skuldara m.a. með því að breyta lögum þannig að kröfuhafar geti aðeins gengið að veðsettri eign. Þessi réttarbót þýðir í stuttu máli að einstaklingur getur skilað inn lyklum að eign sinni og er þá laus allra mála. Síðan þarf að breyta gjaldþrotalögunum þannig að einstaklingur sem verður gjaldþrota beri ekki ábyrgð á þeim skuldum sem eftir standa, eða með öðrum orðum, eftir að einstaklingur hefur farið í gjaldþrot geta kröfuhafar ekki endurvakið kröfurnar næstu 15 árin.

Ég hef nokkrar spurningar sem ég vil beina til ráðherra og tel brýnt að verði svarað áður en við samþykkjum þetta frumvarp. Fyrsta spurning mín hljóðar svo: Hvernig á að tryggja að jafnræði ríki milli þeirra sem völdu að taka verðtryggð lán og hinna sem völdu gengistryggð lán þegar þeir fjárfestu í fasteignum sínum?

Í öðru lagi er talað um í frumvarpinu að það eigi að meta greiðslugetu einstaklinga og fyrirtækja út frá eigna- og skuldastöðu viðkomandi. Það er hins vegar ekki talað um hvernig eigi að meta eignastöðuna. Á að taka mið af núverandi ástandi, sem best er lýst með brunaútsölu, eða á að miða við eðlilegt ástand á fasteignamarkaði? Sérfræðingar kalla slíkt eignamat sanngirnisvirði eigna. Í dag eru margar eignir, sérstaklega stórar eignir, seldar á brunaútsölu, ef þær þá seljast. Þetta ástand mun að öllum líkindum vara í nokkur ár.

Annað sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra að er hversu lengi eigi að viðhalda verðtryggingu með greiðslujöfnunarvísitölu. Ég hefði sjálf viljað sjá sólarlagsákvæði eða einhver tímamörk á því hversu lengi við ætlum að beita þessari greiðslujöfnunarvísitölu til að verðtryggja fasteignalán. Við vitum öll að um leið og hagkerfið fer að rétta úr kútnum byrja laun að hækka og um leið lánin okkar ef þau verða áfram tengd við greiðslujöfnunarvísitölu.

Annað sem ég hef líka velt fyrir mér og vildi fá að vita er hvort hæstv. ráðherra og hv. nefnd hafi rætt að gefa þeim lántakendum sem nú eru með lán sín í sparisjóðum og bönkum tækifæri til þess að fara með þau lán yfir til Íbúðalánasjóðs. Í dag er þessi réttur algjörlega einhliða en það eru bara lánveitendur sem geta ákveðið hvort þeir selja lánasöfn sín til Íbúðalánasjóðs eða ekki og þurfa þá ekki að spyrja lántaka hvort þeir séu samþykkir því. Mig langar að vita hvort uppi séu áform um að breyta þessu þannig að lántakar geti óskað eftir flutningi. Slíkt val mun auka samkeppni milli lánastofnana og tryggja í meira mæli að lánastofnanir séu á tánum varðandi að meðhöndla skuldara með sambærilegum hætti.

Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Þórs Saaris um að of langt sé gengið í nefndarálitinu þegar talað er um að gera breytingar á lögum um tekjuskatt og hvet ég hæstv. ráðherra og hv. félags- og tryggingamálanefnd til þess að íhuga hvort ekki sé betra að taka þetta ákvæði út úr nefndarálitinu. Reyndar má geta þess að núverandi formaður félags- og tryggingamálanefndar er sammála mér um nauðsyn þess að taka þetta ákvæði út úr nefndarálitinu.

Að lokum vil ég segja að ég fagna þessu frumvarpi vegna þeirrar miklu neyðar sem mörg heimili búa við en ég vil líka árétta að ég lít svo á að þetta frumvarp sé aðeins lítið skref í áttina að réttlátri meðhöndlun skuldara.