138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[13:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að lýsa yfir því að við sjálfstæðismenn höfum tekið vel í þetta frumvarp og eiginlega flestir sem ég hef heyrt um það fjalla. Hins vegar verð ég sem stjórnarandstæðingur að benda á að það kemur náttúrlega allt of seint og loksins þegar það kemur þá kemur það með allt of miklu hraði. Stjórnarandstaðan var ekki höfð með í ráðum við vinnslu þessa frumvarps sem er miður, því að ég hef alla vega verið mjög tilbúinn í því að leggja mitt af mörkum í því að ná niðurstöðu og þess vegna þurftum við að setja okkur inn í málið og höfum bara alls ekki getað það. Það er eiginlega ekki hægt að segja að við höfum náð því fullkomlega á þeim tveim, þrem sólarhringum sem það var í hv. félagsmálanefnd. Þetta er svona eins konar tilraunalagasetning, eins og menn tala um tilraunaeðlisfræði, svo er það lagað þegar reynsla er komin á það.

Hér hefur dálítil umræða orðið um óráðsíufólk og ég vil gera mun á því. Það er fólk sem gat verið mjög ráðdeildarsamt og sparsamt en tók áhættu og það er dálítill munur á því. Svo eru sumir sem voru óráðsíumenn og eyddu og spenntu út í vitleysu og svo eru sumir hvort tveggja, bæði tóku áhættu og voru óráðsíumenn. En þessi hópur, sérstaklega þeir sem voru stórtækir, þeir sem keyptu hlutabréf fyrir kannski 100 milljónir eða 200 eða 300 og svo hurfu hlutabréfin sem þeir keyptu, þ.e. eignin hvarf en skuldin situr eftir, þetta fólk er komið í gersamlega vonlausa stöðu. Þetta fólk nýtur ekki mikillar samúðar, alla vega ekki hjá hv. þm. Þór Saari eins og hann gat um áðan, og ég hugsa að þetta fólk þurfi að taka niður myndir af veggjum líka, svo ég noti sömu viðkvæmnislegu rökin og hann var með, þegar það flytur úr fínu húsunum sínum.

En ég held að við þurfum að sýna ákveðna mannúð í þessu eins og öðru. Þó að einhver hafi reykt alla tíð og endi svo á spítala með lungnakrabba þá látum við hann ekki borga fyrir aðgerðina þótt hann eigi sök á henni sjálfur. Við þurfum því að sýna ákveðna samúð, líka gagnvart öðrum fjölskyldumeðlimum, börnum, maka og jafnvel systkinum og foreldrum, við þurfum að meðhöndla þetta fólk þannig að það eigi sér einhverja von. Ég lít þannig á að þetta fólk falli undir þessi lög og það eigi þá að minnka við sig ef það er ekki ráðdeildarsamt í lítilli blokkaríbúð. Það gæti nefnilega verið líka, það gæti búið í blokkaríbúð og hafi keypt stofnbréf í sparisjóði fyrir 50 milljónir, það gæti verið. En það er sem sagt gert ráð fyrir því að menn minnki við sig niður í hæfilegt húsnæði og jafnvel er svo talað um einn bíl og að því loknu er metið hverju það getur staðið undir af skuldum og restin skorin niður. Ég held að þetta sé skynsamlegt, frú forseti. Tapið er komið og ef þetta er ekki gert verða menn gjaldþrota og hvað gerist þá? Þá missir maðurinn allan hvata til að vinna, hann hefur ekkert til að berjast fyrir og þá verður tap þjóðfélagsins í heild sinni miklu meira, þunglyndi og annað kemur upp og fjármálastofnunin sem á endanum ber þetta tap, ekki ríkissjóður nema sem eigandi náttúrlega, það er búið, tapið er komið, þetta er búið og gert. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það eigi að hjálpa þeim sem lenda í miklum vandræðum til þess að geta barist áfram og haft einhverja von til að geta klárað þetta. Þannig náum við mestu út úr manninum og hann hefur von til að klára sitt og stendur í skilum eins og hann getur. Þetta frumvarp gengur út á það.

Í nóvember 2008 kom fram frumvarp um einmitt svona greiðsluaðlögun sem þáverandi ríkisstjórn flutti og það er notast við þá vísitölu og þær aðferðir í þessu frumvarpi en það frumvarp var ekki fullnægjandi, var ekki nógu víðtækt. Þetta frumvarp er í rauninni tvenns konar. Það er í fyrsta lagi almenn aðgerð, og ég var svona dálítið á móti því að þetta yrði gert fyrir öll skuldabréf, bara bingó, sem eru verðtryggð, að þeim yrði breytt en sannfærðist á því að með því hafa afturköllunina mjög lipra gæti ég fallist á það. En það varð forsendubrestur og það er dálítið skrýtið að heyra fólk segja: Ef launin hækka og þetta lagast þá borgum við lánin til baka. Nema hvað, frú forseti. Nema hvað? Forsendubresturinn lagaðist, forsendubresturinn fólst í því að launin hækkuðu ekki eins og verðlag, lækkuðu meira að segja mikið og ef það lagast er forsendubresturinn farinn og allir hamingjusamir. Einnig ef það verður hagvöxtur, þá hafa menn sagt: Þá nýtur maðurinn ekki hagvaxtarins, hann fær ekki hagvöxtinn. Auðvitað fær hann hagvöxtinn, frú forseti, því hann á ekki að eyða 100% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði, það er yfirleitt svona 30, í hámarki 40%, þannig að hann heldur þá 70% fyrir sig í hagvextinum. Mér finnst það bara ágætt, mér finnst það ekkert slæmt.

Svo er það með sérstöku úrræðin, ég er að mestu leyti sammála þeim. Þetta tjón er þegar orðið, það er búið að tapa og það er mjög mikilvægt að menn finni lausn á þessu hratt og vel að leysa og horfast í augu við þann vanda sem þegar er og hann sé leystur, þannig að fyrirtæki og einstaklingar geti farið að lifa eðlilegu lífi og berjast áfram og borga sínar skuldir þar sem þeir geta.

Ég var með fyrirvara um þetta vegna þess hvað þetta væri hratt unnið. Það er eiginlega það eina sem ég er með fyrirvara um og svo mundi ég endilega leggja til að skattalegu hlutirnir verði lagaðir í betra tómi. Það er dálítið hættulegt að fara að hreyfa skattalögin, það getur komið upp eitthvað furðulegt, sérstaklega fyrirtækin. Og ég sem nefndarmaður í efnahags- og skattanefnd mun örugglega leggja hart að mér við að finna á því lausn þannig að þeir sem fá endurgreitt fái að öllu jöfnu að það sé ekki talið til tekna það sem þeir sem fá niðurfellt af skuldum