138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[13:50]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég vildi kveðja mér hljóðs í þessari umræðu og lýsa yfir ánægju hversu langt við erum komin á hinu háa Alþingi með þetta verkefni okkar. Búið er að vinna hratt og vel á öllum stigum málsins og þá sérstaklega kannski í félags- og tryggingamálanefnd undanfarna daga.

Hér höldum við áfram með það verkefni að fara í endurskipulagningu skulda hjá þeim sem eru verst staddir með húsnæðislán sín og fyrir allan almenning að greiðslujafna og færa afborganir af lánum fram fyrir hrun.

Ég ætla að vekja athygli á tveimur, þremur punktum í frumvarpinu. Það er í fyrsta lagi að hér erum við að fara fram með verklagsreglur á því hvernig tekið verði á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Þetta er eitthvað sem við erum öll búin að tala um í langan tíma, þetta er eitthvað sem við lögðum áherslu á í uppgjöri á því sem gerðist, að einhverjar samræmdar reglur og gagnsæi mundi ríkja á því hvernig tekið yrði á skuldavanda heimila og hér erum við að festa það í lög, bæði hvað varðar fyrirtæki og hvað varðar einstaklinga. Það er vel.

Auk þessa er hér lagt til að skipuð verði eftirlitsnefnd til að tryggja að um samræmi í vinnubrögðum sé að ræða, þ.e. að lánastofnanirnar vinni eftir þeim reglum sem menn hafa komið sér saman um að vinna eftir. Hér er verið að tryggja gagnsæi og sanngirni í vinnubrögðum og það er kannski stóra fréttin í þeirri vinnu sem félags- og tryggingamálanefnd er búin að leggja á sig undanfarna daga í einstaklega góðu samstarfi allra flokka sem ég vil taka hatt minn ofan fyrir.

Aukinheldur eru menn sammála um að hér sé um að ræða stórt skref en kannski bara það fyrsta í því að koma til móts við heimilin í landinu til þess að fólk geti haldið áfram að búa í húsum sínum. Hér er talað um að skipa eigi þverpólitískan starfshóp til að fylgja eftir þessari lagasetningu og kanna hvort við séum að ná markmiðum laganna og það strax.

Í lok þessarar stuttu ræðu minnar langar mig bara til að vekja athygli á forsíðufrétt í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni: „Langflestir standa í skilum.“ Þar segir, með leyfi forseta:

„Á bilinu áttatíu til rúmlega níutíu prósent viðskiptavina bankanna eru í skilum með afborganir fasteignalána, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þetta er betri staða en í ágúst þegar fimmtungur þeirra borgaði ekki eða var í vanskilum.

Til samanburðar voru 94,9 prósent lántakenda í skilum við Íbúðalánasjóð um síðustu mánaðamót.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í kringum áttatíu prósent viðskiptavina Íslandsbanka greiða af húsnæðislánum sínum án þess að nýta sér þau úrræði sem bankinn býður upp á. Tuttugu prósent viðskiptavina nýta sér úrræðin, samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka.

Hjá Nýja Kaupþingi eru 97 prósent viðskiptavina bankans í skilum með afborganir af íbúðalánum. Sex til sjö prósent nýta þau greiðsluúrræði sem í boði eru.“

Ég held að þessi frétt sýni að sú nálgun sem ríkisstjórnin lagði upp með í vinnu sinni að fókusera þá vinnu, þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum til að hjálpa þeim sem eru í verstri stöðu en meginþorri almennings þarf kannski ekki svo mikla hjálp til að geta staðið í skilum og það erum við að leggja til með þessu greiðslujöfnunarúrræði sem hér er komið fram.