138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[14:00]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram og þá miklu samstöðu sem hefur náðst í meðförum þessa máls í félags- og tryggingamálanefnd. Einnig vil ég ljúka lofsorði á fulltrúa allra flokka í nefndinni sem hafa einsett sér að vinna þetta mál vel á stuttum tíma. Því miður þurfa mál, við þær aðstæður sem við búum við eftir hrunið, stundum að afgreiðast hratt ef þau eiga að koma að fullum notum. Mikilvægt er að þetta mál verði að lögum í dag ef takast á að ná fram lækkun greiðslubyrði strax um næstu mánaðamót og það veldur auðvitað þeim hraða sem á málinu er.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu enda er mikilvægt að við komumst í atkvæðagreiðslu sem fyrst. Ég ætla einungis að geta þess að ég tel að nefndin hafi farið mjög vel yfir alla þætti sem mestu skipta hér.

Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum, sérstaklega frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, í fyrsta lagi hvernig jafnræði verði tryggt milli verðtryggðra og gengistryggðra lántakenda. Almennu úrræðin eru hönnuð þannig að ákveðnu jafnvægi sé náð. Þegar menn horfðu til þess hvaða viðmiðunardagsetning ætti að liggja til grundvallar viðmiðuninni, þ.e. 1. janúar í tilviki verðtryggðu lánanna og 2. maí í tilviki gengistryggðu lánanna, voru menn — án þess að ég hafi verið aðili að þeirri umræðu allri þegar bankarnir, Íbúðalánasjóður, félagsmálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið fóru yfir þetta í mars og apríl — að reyna að búa til ákveðið jafnræði sem fælist í að frá tilteknum tímapunkti fyrir hrunið væru vextir og verðbætur annars vegar og vextir og gengisþróun hins vegar nokkurn veginn sambærileg fyrir báða hópa. Sem sagt að áfallið sem hafði orðið vegna gengislækkunar og verðbólgu á þessum tíma mundi bitna nokkurn veginn jafnt á báðum hópum, að viðmiðunin fyrir greiðslujöfnunina, grunnurinn væri sá sami.

Í sértæku skuldaaðlöguninni blasir við að meiri afskriftir geti orðið í tilviki gengistryggðra lána einfaldlega vegna þess að þau hafa hækkað svo mikið. Það er bara staðan eins og hún er og við búum við en ég held þó að við höfum tryggt jafnræði eins vel og kostur er við þessar aðstæður þar sem menn greiða á sömu forsendum áfram af lánunum og sömu forsendurnar gilda fyrir báða lántakendahópa.

Hv. þingmaður nefndi líka eignastöðu, hvaða viðmið væru þar. Talað er um afskriftir og hvað verði lagt til grundvallar við afskriftir í sértækri skuldaaðlögun. Ég býst við að bankarnir verði þar að horfa á einhvers konar raunvirði frekar en nafnverð af því að ég held einfaldlega að kostnaðurinn fyrir bankana af yfirtöku eigna og rekstri þeirra tímabundið sé svo mikill að hæpið sé að miða við annað en markaðsvirðið eins og það stendur í dag, þótt það hafi tekið mikla dýfu. Eins og ég hef skilið samtöl bankanna og þeirra sem hafa verið að vinna að sértæku skuldaaðlöguninni er gengið út frá því að tilteknum hluta skuldar verði frestað og tekin afstaða til þess hluta síðar, þ.e. hvernig með afskriftir verði farið. Ég held að viðmiðun um raunverð eigna hljóti örugglega að verða hin eðlilega niðurstaða eins og hún er í dag. Það er svo erfitt að gefa sér einhverjar aðrar forsendur fram í tímann sem eru þá háðar því að einhver þarf að geta borið kostnað af þessari eign allan þann tíma.

Hversu lengi eigum við að nota greiðslujöfnunarvísitöluna? Það er líka mjög góð spurning. Ef við gefum okkur að allt gangi hér vel og að jöfnunarreikningurinn tæmist getur hver og einn skuldari auðvitað breytt aftur yfir í hitt kerfið. Hann er frjáls að því um leið og búið er að tæma jöfnunarreikninginn þannig að hann þarf ekki að greiða áfram samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölunni ef hann vill frekar fara aftur í neysluverðsvísitöluna. Almennt séð vona ég samt að við náum að byrja þá vegferð sem ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á, sem er að við reynum að fikra okkur út úr verðtryggingunni og yfir í óverðtryggð lánakjör. Þess vegna einmitt var að finna í frumvarpinu ákvæði sem gerir ráðherra kleift að ráðast í tilteknar aðgerðir hvað varðar að byggja upp endurfjármögnunarkerfi sem gerir okkur kleift að greiða fyrir þeirri þróun.

Að síðustu var spurt um tækifæri skuldara til þess að fara með lánin yfir til ÍLS. Við höfum alltaf haft þá meginreglu að opinbera húsnæðiskerfið heimili ekki endurfjármögnun lána heldur bara leiðrétting við kaup. Ástæðan er sú að menn vildu ekki setja hið opinbera íbúðalánakerfi í þá stöðu að vera eins og banki, að endurfjármagna lán og veita í sjálfu sér lán út á eiginfjárdrátt eins og gerst hefur á síðustu árum í bankakerfinu þegar menn hafa tekið lán út á hækkun á fasteignamatinu og keypt sér fellihýsi og skemmtilegheit út á það. Eðlilegra er að bankar séu í þeim bransa. Þetta hafa verið hin almennu sjónarmið að baki því að menn hafa ekki talið eðlilegt að Íbúðalánasjóður endurfjármagnaði lán og þar með ekki að hann tæki yfir lán frá öðrum.

Auðvitað má segja að í dag kunni að vera önnur sjónarmið. Með því samkomulagi og samningum sem hafa náðst áður og einnig því sem við munum gera við bankana núna tryggjum við þó að þeir beiti mjög áþekkum úrræðum og Íbúðalánasjóður getur beitt fyrir skuldarann. Ég er því ekki viss um að það verði brýnn vandi af þessu en auðvitað er sjálfsagt að skoða áfram í frekari vinnu hvort eðlilegt sé að breyta þessu. Það hefur þá hættu í för með sér að við getum búið til farveg fyrir að hið opinbera húsnæðislánakerfi kyndi undir endurfjármögnunarbólur. Við höfum ekki viljað það heldur frekar að kerfið væri fyrst og fremst til húsnæðisöflunar í þröngum skilningi.

Ég ætla ekki að orðlengja þær breytingar sem nefndin hefur gert, ég tel þær allar til bóta. Varðandi ákvæðin til bráðabirgða lýsti ég því í 1. umr. málsins að ég hefði hug á að setja á fót þverpólitíska nefnd og ég fagna því að nefndin hefur sett það inn í bráðabirgðaákvæðið. Við erum þegar búin að gera ráðstafanir í ráðuneytinu til þess að reyna að tryggja að fullnægjandi gögn verði útbúin fyrir þessa vinnu og við erum tilbúin að kosta ýmsu til í því efni. Við munum líka leita eftir samráði við Seðlabankann um aðkomu hans að því að veita okkur reglulega aðgang að fullnægjandi gögnum í þessu nefndarstarfi.

Ég tel gott að þessi hópur horfi á þörfina á embætti umboðsmanns skuldara. Ég hlakka til að vinna með þessum hópi. Það er náttúrlega sögulegt við þessa löggjöf að settur sé á þverpólitískur hópur sem hafi að markmiði að styrkja stöðu skuldara. Þetta hefur lengi verið draumur okkar margra að einhver hafi það umboð að styrkja stöðu skuldara í þeirri ójöfnu stöðu sem hefur verið á markaði á Íslandi áratugum saman. Réttindi kröfuhafa hafa verið ákveðin grunnregla í íslenskum kröfurétti, þjóðinni til mikils tjóns. Það er mikils virði að snúa frá þeirri öfugþróun, styrkja stöðu skuldara og að allir átti sig á því hversu mikil þjóðhagsleg hagkvæmni er að því að styrkja stöðu skuldara og gera þeim betur kleift að hafa raunverulega samningsstöðu í viðureign við kröfuhafa.

Að síðustu er því ákvæði sem var í 6. gr. frumvarpsins breytt í bráðabirgðaákvæði sem felur ráðherra að leita leiða til að mæta skorti á langtímafjármögnun á íbúðalánamarkaði og tryggja fjármögnun og endurfjármögnun íbúðalána fyrir fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóð. Ég hef heyrt hér í umræðunni að margir þingmenn binda miklar vonir við þetta ákvæði. Ný endurfjármögnunarúrræði á markaði eru mjög mikilvæg í dag. Sparisjóðirnir hafa t.d. enga möguleika á að veita íbúðalán að óbreyttu. Við þurfum líka að finna leiðir til þess að greiða aðgang allra fjármálafyrirtækja að skuldabréfamarkaði og þar hefur Íbúðalánasjóður algjöra sérstöðu í þekkingu og reynslu af útgáfu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að binda aðila saman að þessu leyti af því að við eigum mikið undir því sem þjóð til lengri tíma litið að íbúðalán séu forfjármögnuð eins og þau voru fram til ársins 2004. Lánin sem veitt eru eiga alltaf að vera veitt á sjálfbærum forsendum, að búið sé að afla fjár til þess á móti. Þannig drögum við úr eignaverðsbólum og þenslu í hagkerfinu og tryggjum traustara og stöðugra framboð á lánsfé jafnt í uppsveiflu sem í niðursveiflu.

Ég tek þess vegna þetta verkefni sem mér er falið alvarlega og mun leita eftir samstarfi við bankana og Íbúðalánasjóð strax á næstu dögum til þess að útfæra aðferðafræði í þessu efni. Það er líka mikilvægt að hafa hraðar hendur þannig að við gefum fyrirheit út á markaðinn um hvernig við ætlum að leysa úr þeim skorti á aðgangi að lánsfé sem veldur ákveðnum töfum á fasteignamarkaðnum í dag. Fólk er fast í stórum húsum, kemst ekki úr þeim vegna þess að kaupendur fá ekki lánsfé til að kaupa dýr og stór hús. Það er ekki þar með sagt að það eigi að vera samfélagslegt verkefni eða verkefni ríkisrekins íbúðalánasjóðs með ríkisábyrgð að lána fyrir mjög stórum húsum heldur þurfum við í samvinnu við bankana að byggja upp annað tæki til þess þannig að bankarnir eigi aðgang að lánsfé sem þeir geta notað til að veita lán í stærri og dýrari eignir. Þannig greiðum við fyrir viðskiptum á markaðnum og hjálpum honum aftur af stað því að það getur ekki heldur verið verkefni lánastofnunar sem rekin er á samfélagslegum forsendum með afkomuöryggi og húsnæðisöryggi fólks í huga að lána fyrir stórum villum. Þess vegna er mikið fagnaðarefni að þetta skuli vera sett svona fram í bráðabirgðaákvæðinu.

Að síðustu ítreka ég þakkir til nefndarinnar, þakka þessa góðu umræðu hér og hlakka til frekara samstarfs við fulltrúa allra þingflokka í þeirri nefnd sem við munum nú setja á fót um þetta brýna mál.