138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[14:46]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Farið er í gríðarlega flóknar aðgerðir á miklum hraða við óvenjulegar aðstæður. Ég varð afskaplega glaður yfir því hversu mikil sátt var í nefndinni um málið. Í ljósi þess hve vanmáttug staða skuldara er gagnvart fjármálakerfinu í heild sinni lagði ég ríka áherslu á það í nefndinni að stofnaður yrði umboðsmaður skuldara. Þær áherslur náðu inn í verkefnalista starfshópsins sem skilar niðurstöðum í mars 2010 og er það vel þótt ég hefði kosið að tilvist umboðsmanns hefði verið tryggð í sjálfu frumvarpinu og þannig stigið fastar til jarðar í þágu skuldara.