138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskipulagning skulda.

[15:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sem betur fer sér fyrir endann á því að endurreisa eða koma á fót nýju bankakerfi með fjármögnun nýju bankanna og koma því á fastan grunn. Þá hefur orðið sú breyting á að forræðið fyrir eignarhaldinu á stóru bönkunum þremur er farið frá fjármálaráðuneytinu til Bankasýslunnar í samræmi við lög þar um. Það er Bankasýslunnar að halda eignarhlutinn og skipa í bankaráð að fengnum tillögum valnefnda og síðan að fylgjast með því að eigendastefnu ríkisins, að því marki sem hún á við og í samræmi við eignarhlut ríkisins, sé framfylgt. Þetta hlutverk hefur Bankasýslan með höndum samkvæmt lögum. Bankarnir hafa verið að móta sína aðferðafræði og hafa sumpart kynnt hvernig þeir hyggist fara í og vinna að þeim gríðarlega stóru, flóknu og erfiðu viðfangsefnum eins og að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu drjúgs hluta íslensks atvinnulífs. Það er því miður veruleikinn sem við okkur blasir að mörg fyrirtæki eru skuldsett. Sum þeirra munu ekki eiga sér lífsvon, önnur geta með stuðningi og fjárhagslegri endurskipulagningu komist á traustan grunn með rekstur sinn. Að sjálfsögðu er bönkunum upp á lagt að vinna þetta samræmt, faglega og viðhafa það gagnsæi eins og kostur er, samanber þá eigendastefnu sem ég hef áður vitnað til. Það snýr því að sjálfsögðu að þeim að veita sínar upplýsingar um vinnureglur í þessum efnum. Það snýr að Bankasýslunni að fylgja því eftir að eftir þeim sé farið, að unnið sé faglega og samræmt og er sjálfsagt mál að miðla síðan upplýsingum til Alþingis um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig.

Það hefur verið ætlun mín að koma með skýrslu um endurreisn bankakerfisins og stöðu þeirra mála en það hefur dregist nú um nokkurra vikna skeið einfaldlega vegna þess að stórar ákvarðanir eru að ráðast í þeim málum einmitt á þessum vikum.