138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

Fjármálaeftirlitið.

[15:21]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra greinargóð svör. Stjórn Fjármálaeftirlitsins er ekki starfsmenn þess en mér fannst svolítið athyglisvert að heyra hæstv. ráðherra segja það sem hann sagði, að þrátt fyrir að í ljós hafi komið stórfelldir meinbugir á stjórnsýslu í aðdraganda hrunsins hefur ekkert verið gert af hálfu ráðuneytisins í þessu tilviki til að taka á því öðruvísi en lagfæra rammann utan um löggjöfina. Það finnst mér athyglisvert svar og tel að þingið eigi að leggja eyrun við, hugsanlega getur farið eins um aðra þætti í stjórnsýslunni, þrátt fyrir stærsta hrun í sögu lýðveldisins verður þar kannski engu breytt.