138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskoðun AGS og afgreiðsla Icesave.

[15:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Í síðustu viku samþykkti framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins loksins fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og því ber vissulega að fagna. En það var gert án þess að Icesave-málinu svokallaða væri lokið þrátt fyrir að í gildi séu lög sem heimila aðeins ríkisábyrgð að uppfylltum þeim fyrirvörum sem Alþingi setti núna í sumar.

Því hefur verið haldið mikið á lofti að lausn á Icesave-málinu væri forsenda þess að endurskoðunin fengist samþykkt en nú hefur það sem sagt gerst að endurskoðunin gekk í gegn án lúkningu á Icesave-málinu. Sé það rétt sem ýmsir þingmenn Vinstri grænna hafa sagt síðustu daga, að þeir hafi ekki enn þá tekið ákvörðun um hvort við samþykkjum það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fyrir þingið má ljóst vera að það er ekkert gefið að þessi lög verða samþykkt. Enda væri slíkt í hæsta máta óeðlilegt þar sem maður ætlast til þess, ef yfirlýsingar hv. þingmanna í gegnum tíðina um þinglega meðferð eru hafðar í huga, að þinginu verði gefinn allur réttur á því að breyta þessu máli, sýnist því þörf á. Spurningar mínar til fjármálaráðherra eru því þessar:

Voru einhverjir fyrirvarar settir af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem snúa að Icesave við þessa endurskoðun? Býst ráðherrann við einhverjum aðgerðum af hálfu sjóðsins ef Alþingi samþykkir ekki þau lög um ríkisábyrgð sem nú liggur fyrir? Einnig vil ég spyrja hvort ríkisstjórnin hafi veitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þá stjórnvöldum bæði á Norðurlöndunum og í Póllandi fullvissu fyrir því að Icesave-frumvarpið fari í gegn, vegna þess að það var skilyrði fyrir lánveitingu þeirra, ef ég skildi það rétt.

Einnig vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra í ljósi frétta í hádegisútvarpinu um að skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um framvindu efnahagsmála á Íslandi verði frestað, hvort hann geti gefið einhverjar skýringar á þeirri töf. Skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um framvindu efnahagsmála á Íslandi hefur verið frestað, (Forseti hringir.) útgáfu skýrslu sem átti að koma í dag, og ekki voru gefnar neinar skýringar á því. Því óska ég eftir að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi það ef hann veit það.