138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

verklagsreglur banka.

[15:30]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja út í verklagsreglur bankanna. Núna fáum við fréttir af tugum milljarða afskrifta fyrirtækja í banka eins og Nýja Kaupþingsbanka. Í verklagsreglum Nýja Kaupþings stendur að áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda byggist á því að þeir njóti trausts og þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins. Þessar verklagsreglur virðast ekki koma í veg fyrir að einn helsti forustumaður útrásarinnar haldi skuldsettu fyrirtæki sínu að lokinni endurskipulagningu skulda fyrirtækisins. Því vakna upp spurningar um hvernig skilgreina eigi traust einstaklinga og hvort eigendur og stjórnendur eigi að sæta ábyrgð á gerðum sínum. Ég spyr því efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann álíti verklagsreglur bankanna nógu skýrar. Ef svarið er já, spyr ég hvort hann muni beita sér fyrir því í gegnum Bankasýsluna að móta þær með skýrari hætti. Auk þess vil ég vita hvort ráðherra sé almennt þeirrar skoðunar að nota eigi endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja, sérstaklega fákeppnisfyrirtækja, til að skipta þeim upp og tryggja dreift eignarhald.