138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

verklagsreglur banka.

[15:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir minntist ekki sérstaklega á fyrirtækið Haga sem hefur verið í umræðu undanfarna daga en ég geri ráð fyrir því að það hafi verið kveikjan að þessari fyrirspurn, alla vega að hluta. Vegna þess vil ég taka fram að í fyrsta lagi tel ég að það sé ekki hlutverk ráðherra eins og mín eða annarra að hafa afskipti almennt af málefnum einstakra fyrirtækja þegar þau eru í vinnslu hjá bankakerfinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt grundvallarsjónarmið að stjórnmálamenn, hvort sem þeir eru ópólitískir eða ekki, hafi ekki bein afskipti af því sem bankarnir eru að gera á þessu sviði. Meðal annars bendi ég á að Bankasýslunni var m.a. komið á fót til að tryggja að þetta sjónarmið fengi að njóta sín.

Hins vegar tel ég, og tek undir það með hv. þingmanni, að við endurreisn íslensks efnahagslífs eftir þær hörmungar sem á því hafa dunið eigum við vitaskuld ekki að taka kerfið frá 2007 og reisa það upp aftur óbreytt. Auðvitað gerum við það ekki. Við munum ekki almennt endurreisa öll þau föllnu eignarhaldsfélög sem hér tröllriðu þjóðfélaginu og skilja það eftir með mörg hundruð eða mörg þúsund milljarða kr. skuldir. Það er ekki nokkur glóra í því.

Það er síðan annað mál hvað gera á við öll þau rekstrarfélög sem eru í raun og veru miklu mikilvægari fyrirtæki sem eru eða voru um tíma í eigu þessara eignarhaldsfélaga. Það kann vel að vera að það sé skynsamlegt að gera þar á einnig einhverjar breytingar, t.d. taka rekstrarfélög sem voru með umsvifamikinn rekstur á mörgum sviðum og koma þeim í hendur nýrra eigenda og jafnvel með nýju skipulagi. Það kann vel að vera að það þurfi að huga að því og ég geri raunar fastlega ráð fyrir að það verði niðurstaðan í einhverjum tilfellum.