138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landflutningalög.

58. mál
[15:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um landflutninga.

Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga nr. 24/1982, um flutningasamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi. Var það samið af starfshópi sem skipaður var til að endurskoða lögin og vinna tillögur að breytingum.

Frumvarpið sem hér er kynnt er afrakstur vinnu starfshópsins. Megintilgangur þess er að laga reglur á sviði landflutninga að því rekstrarumhverfi sem starfsgreinin landflutningar býr við í dag, að teknu tilliti til þeirra breytinga og þróunar sem átt hefur sér stað á þessu sviði frá því gildandi lög voru sett.

Í frumvarpinu er að finna ýmsar breytingar og nýmæli og mun ég nú í stuttu máli gera nánari grein fyrir þeim helstu:

Í fyrsta lagi er lagt til að heiti frumvarpsins verði landflutningalög. Er það til einföldunar og einnig er með þeirri breytingu tekið mið af heiti annarra laga á sviði flutningaréttar, eins og siglingalög og loftferðalög.

Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar og nýmæli hvað varðar gildissvið frumvarpsins.

Þar er fyrst að nefna að frumvarpið gildi um allan vöruflutning með ökutækjum á landi, hvort sem flutt er innan bæjarfélaga eða þeirra á milli en gildandi lög eiga bara við um flutning milli bæjarfélaga. Þá er lagt til að frumvarpið gildi án tillits til hvort greitt er fyrir flutninginn eða ekki og skiptir ekki máli í hvaða formi endurgjaldið er.

Gámaflutningar eru nú mjög algengur flutningsmáti og er því í frumvarpinu tekið fram að það gildi um flutninga sem samtengdum ökutækjum og gámum en sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum.

Einnig er nýmæli að lagt er til að frumvarpið sé ófrávíkjanlegt nema annað sé sérstaklega tekið fram en óvissa hefur ríkt um hvort gildandi lög séu frávíkjanleg.

Í þriðja lagi er að finna þá nýbreytni frá gildandi lögum að í frumvarpinu eru skýrð nokkur hugtök sem þar er að finna og er slíkum orðskýringum ætlað að auðvelda skýringu og túlkun þess.

Í fjórða lagi er að finna nokkur nýmæli um flutningssamninginn og atriði honum tengd. Má þar nefna að kveðið er á um sönnunargildi fylgibréfs og að heimilt sé að bæta við efni þess umfram það sem skylt er að komi þar fram. Þá er lagt til að fylgibréfið geti verið rafrænt og undirritun á það megi vera stimpluð eða prentuð. Einnig eru ítarlegri ákvæði um móttöku, flutning og afhendingu vöru.

Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á ábyrgð flytjanda og breytingar hvað varðar takmörkunarfjárhæð bóta.

Í dag gildir sú ábyrgðarregla í flutningum á vegum innan lands að ábyrgð flytjanda er hlutlæg með nánar tilgreindum undantekningum sem taldar eru upp í lögunum. Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp svokölluð sakarlíkindaregla en í henni felst að flytjandi er bótaskyldur vegna tjóns á þeim farmi sem hann flytur nema hann sanni að tjónið sé hvorki að rekja til hans eða neins sem hann ber ábyrgð á.

Í gildandi lögum er takmörkunarfjárhæð bóta ákveðin krónutala fyrir hvert brúttókíló sem tekur breytingum í samræmi við sérstaka vísitölu. Þar sem þessi viðmiðunarvísitala er ekki lengur til er erfitt að reikna út takmörkunarfjárhæðir. Er því lögð til sú breyting að takmörkunarfjárhæð miðist við SDR og er það til samræmis við það sem almennt gildir í flutningarétti. Þá er lögð til sú breyting að takmörkunarfjárhæð verði 12,5 SDR fyrir hvert kíló vöru. Einnig er lagt til að heimilt verði að víkja frá þessari takmörkunarfjárhæð en þó aðeins til hækkunar á bótafjárhæð.

Ég tel ekki ástæðu til að reifa þessar breytingartillögur frekar enda er þetta ítarlega skýrt í greinargerðinni með frumvarpinu og vísa ég til þess.

Auk þeirra atriða sem ég hef þegar fjallað um er í frumvarpinu að finna ýmislegt fleira sem bæði er nýmæli og til nánari skýringa. Má þar nefna tilvik þar sem flytjandi getur undanskilið sig ábyrgð og skýrari reglur um skyldu sendanda hvað varðar frágang, pökkun og meðhöndlun vöru. Einnig eru ítarlegri reglur um flutning á hættulegum vörum og um móttöku vöru. Þá er lagt til að flytjandi hafi haldsrétt í vörunni í stað þess að hann hafi handveð og er ítarlega mælt fyrir um hvernig hann getur nýtt sér haldsréttinn.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu nýmæli og breytingar sem lögð eru til með frumvarpinu. Eins og sést af því og ég nefndi í upphafi er hér um að ræða nauðsynlega endurskoðun laga á þessu sviði, enda hafa ýmsar breytingar átt sér stað frá því að gildandi lög voru sett og voru þau því um margt ekki í takt við nútímann.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.