138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landflutningalög.

58. mál
[16:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í fljótu bragði heyrðist mér að hæstv. ráðherra hefði gleymt að svara einu sem ég nefndi er varðar póstþjónustu, þ.e. þá aðila sem flytja vöru sína með póstinum í dag. Samkvæmt þessu frumvarpi nær það ekki utan um þá þjónustu og ég spyr ráðherrann hvernig standi á því.

Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að menn ætli að gera lokatilraun til að spýta lífi í sjóflutninga hér við land. Við verðum að sjá hverju sú vinna mun áorka en það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra ætlar að hrinda af stað vinnu í því máli. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum samþykkti Alþingi á haustmánuðum 2007 að á árinu 2008 yrðu settar 150 millj. kr. til þess að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni. Það sorglega var að þrátt fyrir að Alþingi og við þingmenn, sama hvar í flokki við stóðum, hefðum samþykkt þetta sem lög frá Alþingi ákvað framkvæmdarvaldið að nýta þessa heimild ekki með þeim hætti sem þingmenn úr öllum flokkum lögðu upp með. Það var mikið áfall fyrir landsbyggðina að þeim 150 milljónum skyldi ekki hafa verið varið í takt við það sem þingmenn og Alþingi Íslendinga samþykktu á sínum tíma. Það sýnir kannski stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu þá og jafnvel enn í dag að framkvæmdarvaldið, án þess svo mikið sem að ræða við nefndir þingsins, ákvað að hafa þá lagasetningu sem sett var frá Alþingi, að engu. Það var ekki samgönguráðuneytið sem gerði það heldur viðskiptaráðuneytið. Það er því enn langt í land hjá okkur að ná því í gegn að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni en þrátt fyrir að það sé erfitt árferði fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli setja (Forseti hringir.) vinnu af stað til þess að endurskoða sjóflutninga hér við land og athuga hvort koma megi þeim á á nýjan leik.