138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[16:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að nú er rætt frumvarp sem hefur að markmiði nýsköpun og uppbyggingu fyrirtækja. Það er vissulega skemmtilegra viðfangsefni en þau sem við glímum við flesta daga um hvernig við verjumst þeim efnahagslegu áföllum sem yfir þjóðina hafa dunið. Ég lýsi yfir einlægum stuðningi við meginefni beggja þeirra frumvarpa sem hér eru til umræðu og varða nýsköpunarfyrirtæki, nýsköpun í eldri fyrirtækjum og ný fyrirtæki, annars vegar er spurt um stuðning við þau fyrirtæki og hins vegar um breytingu á lögum um tekjuskatt.

Ég tel einnig að huga ætti að því hvort unnt sé að koma á skattfrádrætti vegna hlutabréfakaupa almennt en ekki eingöngu í nýsköpunarfyrirtækjum eins og hér er lagt til. Ég átta mig á því að það er allt annar handleggur en vil engu að síður vekja máls á því, því það er nauðsyn að byggja hér upp og stuðla að hvers konar atvinnuuppbyggingu.

Ég vil einnig við þessa umræðu um stuðning við sprotafyrirtæki og nýsköpun í fyrirtækjum, minna á nauðsyn þess að stóru og sterku fyrirtækin sem þó eru enn eftir í landinu taki á sig réttlátan skerf af sameiginlegum kostnaði þjóðarinnar, sem aldrei hefur verið erfiðara að jafna út en einmitt nú.