138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta andsvar hæstv. ráðherra verður lengi í minnum haft og við munum trúlega minna hæstv. ráðherra á það hvaða einkunnagjöf hann hefur gefið Framsóknarflokknum í Icesave-málinu og þetta er framfaraskref. Nú finnst mér kveða við nýjan tón hjá ríkisstjórninni eða forustumönnum hennar, en hæstv. utanríkisráðherra er óumdeilanlega einn af þeim. Hann hefur talað fyrir því í stuttu andsvari að innleiða eigi ný vinnubrögð á Alþingi, og þó er hann með eldri mönnum í þessum sal og ætti að vera erfiðast að eiga við hann í þeim efnum. Þó er einn hæstv. ráðherra sem skákar a.m.k. hæstv. utanríkisráðherra og það er hæstv. fjármálaráðherra.

Nú væri ánægjulegt að heyra hvort sami tónn væri hjá hæstv. fjármálaráðherra varðandi vinnubrögðin á Alþingi þegar menn neita að skoða tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni, neita að afgreiða þær úr nefnd til lýðræðislegrar afgreiðslu í þinginu. Það væri áhugavert að heyra þann þingreynda mann segja okkur á eftir hver framtíðarsýn hans er í þeim efnum. Eiga þær tillögur sem stjórnarandstaðan vinnur að og leggur fram á þinginu ekki skilið að fá efnislega umfjöllun og meðhöndlun í þinginu líkt og tillögur stjórnarflokkanna?

Enn og aftur, ég geri mér grein fyrir fortíðinni í þessum efnum og hver hefðin hefur verið. En við þurfum að horfa fram á veginn. Við þurfum að fara að tileinka okkur ný vinnubrögð á þinginu. Þingið er mikill eftirbátur sveitarfélaganna í landinu þegar kemur að þessum málum. Þar fá þó tillögur efnislega meðhöndlun þó að þær komi frá andstöðunni. Þær eru þá einfaldlega felldar ef meiri hlutinn er ekki sammála minni hlutanum. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem á væntanlega eftir að tala á eftir (Gripið fram í: Hann var í andsvari við þig.) hvort hann — ja, hæstv. ráðherra hefur svarað mér svo skilmerkilega. En þar sem ég er að brenna inni á tíma hefði ég gjarnan viljað heyra í hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort hann telji ekki að við eigum að innleiða ný vinnubrögð í sali Alþingis.