138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér með gott mál til umfjöllunar. Þetta er mikilvægt og því ber að fagna. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma fram með þetta löngu tímabæra mál. Eins og fram hefur komið í nokkrum ræðum er þetta ekki alveg nýtt af nálinni hér í þinginu en það er hins vegar nýtt að það skuli frá framgöngu.

Hvort kom nú á undan hænan eða eggið, velti hæstv. utanríkisráðherra fyrir sér. Það sést vitanlega í gögnum þingsins að þetta mál er búið að þvælast hér í svolítinn tíma og það hefur verið eitt helsta baráttumál Framsóknarflokksins undanfarin ár að þetta nái fram að ganga. Því ber að sjálfsögðu að fagna að fjármálaráðherra skuli hafa tekið af skarið með því að leggja fram þessi mál en þetta eru í rauninni tvö mál. Við munum eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að sjálfsögðu skoða þau með jákvæðum augum og það er nauðsynlegt að fara vel yfir þau í nefndum Alþingis.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í beinu framhaldi af þessum sögðu orðum, af því þetta eru nú tvö óskyld mál, hvort þau fari sitt til hvorrar nefndar eða bæði inn í sömu nefnd. Ég tel a.m.k. rétt að iðnaðarnefnd fái málið til umsagnar ef það kemur ekki þangað.

Ég ætla ekki að sökkva mér djúpt í söguskýringar á tilurð þessa máls, það hafa aðrir gert ágætlega. Mig langar að velta upp ýmsu varðandi innihald málsins að hluta til. Ef ég skil málið rétt, það er ágætt ef hæstv. fjármálaráðherra getur aðeins útskýrt það, er í frumvarpinu í raun reiknað með að stofnuð séu annaðhvort ný fyrirtæki eða fyrirtæki með hreina nýsköpunarstarfsemi sem geti nýtt sér þetta. Þá velti ég fyrir mér, segjum að eitthvert fyrirtæki — það getur verið lítið eða stórt — sé að vinna í einhverju einu nýsköpunarverkefni en er kannski ekki beinlínis hefðbundið nýsköpunarfyrirtæki, hvort það sé þá ekki inni í myndinni að hafa lögin þannig að þetta fyrirtæki geti fengið ívilnun fyrir að taka þátt í þessu verkefni. Ég sé fyrir mér að það sé óþarfi að stofna eða búa til mörg ný fyrirtæki um einstök verkefni ef hægt er að komast hjá því, því fylgir náttúrlega kostnaður og annað. Þessu var ég að velta fyrir mér varðandi þetta.

Síðan er það spurning um orðalag, t.d. er hægt að velta fyrir sér varðandi 4. liðinn í 3. gr. Þar stendur, með leyfi forseta: „Starfsemi sem leiðir til nýrrar og endurbættrar afurðar“ en kannski ætti þetta að vera „og/eða endurbættrar afurðar“. Þetta er kannski hártogun en ég held að verðugt sé að velta þessu fyrir sér.

Þá kom önnur spurning upp í hugann. Nú er ríkið aðili að vaxtarsamningum t.d. og tekur þátt í ýmsum slíkum verkefnum. Fyrirtæki sem fær styrk úr vaxtarsamningi eða verkefni sem fær styrk úr vaxtarsamningi inn í vöruþróun eða í eitthvert verkefni og byggir að hluta til á vaxtarsamningnum eða þeim fjármunum — þá velti ég fyrir mér af því að mörg smáverkefni fá fjármuni úr þessu. Það kemur fram í textanum eða skýringum að, með leyfi forseta:

„Fyrirtæki verji eða sýni fram á að varið verði a.m.k. 20 millj. kr. til rannsóknar og þróunar á ári til þess að uppfylla skilyrði fyrir skattfrádrætti enda þykja ekki forsendur til að styrkja með þessum hætti verkefni af minna umfangi.“

Ég hef ákveðnar efasemdir við þetta. Ég skil hins vegar að einhvers staðar þurfi að draga mörkin. Mörg nýsköpunarverkefni byrja mjög smátt en verða svo stærri en þar er ekki um svona háar upphæðir að ræða í byrjun. Þá veltir maður fyrir sér hvort þessi viðmiðun eigi ekki að vera önnur eða a.m.k. að skoða hvort ekki ætti að hafa hana með öðrum hætti. Fyrst við erum að gera þessa lagabreytingu held ég að við verðum að ganga alla leið og gera hana aðlaðandi líka fyrir þessi smærri verkefni því það er ekki sjálfgefið að það séu bara stóru verkefnin sem heppnast. Lítil verkefni geta undið upp á sig og orðið mjög spennandi.

Þetta er nú allt sem ég hef um þetta að segja á þessari stundu, frú forseti. Ég vona að bæði þessi frumvörp fái góða yfirferð í þeim nefndum þar sem þau verða tekin fyrir og fagna því enn og aftur að þetta baráttumál Framsóknarflokksins til langs tíma sé komið á dagskrá og vona að það verði okkur öllum til framdráttar.