138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ákaflega ánægjulegt að hlýða á mál þingmanna sem einhliða hafa lokið lofsorði á þetta mál og tekið því vel. Ánægjulegt er að geta glatt þá, hvort sem það eru framsóknarmenn eða aðrir sem eru í óvenju góðu skapi og tala aldrei þessu vant hlýlega um það sem sá sem hér stendur leggur fram. (BJJ: Ertu ekki ánægður með það?) Jú, ég mæli eiginlega með því að framsóknarmenn láti oftar eftir sér að vera í góðu skapi og tala vel um það sem vel er gert.

Það er alveg rétt að þetta mun vera keimlík hugsun og hefur verið í tillögum frá þingmönnum Framsóknarflokksins síðan árið 2007, þ.e. frá og með því að þeir urðu stjórnarandstæðingar. Þeir höfðu náttúrlega haft talsverðan tíma til að taka til hendinni áður og nýsköpunarmál höfðu einmitt heyrt undir þeirra ráðherra. Þó ber að meta það sem vel er gert og að sjálfsögðu er þessi tillaga einn af þáttunum í forsögu málsins. Þessu hefur reyndar lengi verið hreyft á Alþingi, ég hugsa að ein 15 ár til baka megi finna merki um að menn hafi rætt möguleikann á þessu eða allt frá því að það fór að bera á þróun í þessa átt erlendis. Sá sem hér stendur flutti t.d. fyrir um 10 eða 12 árum síðan líklega í fyrsta sinn tillögu til þingsályktunar um sérstakar stuðningsaðgerðir við lítil og meðalstór fyrirtæki, frumkvöðla og uppfinningamenn. Vel að merkja fékk ég og mínir meðflutningsmenn sem stjórnarandstæðingar þá tillögu samþykkta nokkrum árum síðar (Gripið fram í: En hún varð ekki að veruleika fyrr en ég kom í iðnaðarráðuneytið.) undir vasklegri forustu þáverandi formanns iðnaðarnefndar sem heitir Kristinn H. Gunnarsson, þáverandi hv. alþingismaður. (Gripið fram í.)

Tillaga þessi var samþykkt og gekk til iðnaðarráðuneytisins til fyrirgreiðslu og þess hefur m.a. séð stað síðan í verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar eða Impru þar sem reynt hefur verið að fylgjast sérstaklega með og skoða og kortleggja starfsumhverfi sprotafyrirtækja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sú umræða var ekki mjög þroskuð hér á landi. Þannig höfðu t.d. aldrei verið þýddar leiðbeinandi reglur eða flokkun Evrópusambandsins um hvað skyldi teljast lítil og meðalstór fyrirtæki og hvaða reglum mætti beita um stuðningsumhverfi í þeirra þágu. Bæði á evrópskum og norrænum vettvangi hafði á 10. áratugnum verið mótuð hugmyndafræði af þessum toga sem ég setti mig inn í og þýddi og flutti svo hér sem þingmál og fékk samþykkt, verandi þó í stjórnarandstöðu.

Einstöku sinnum gerist það því, eins og hæstv. utanríkisráðherra vitnaði einnig um, að kannski einu sinni á hálfrar aldar fresti fá stjórnarandstæðingar samþykktar ágætar tillögur. Það leiðir mig að spurningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um hvernig þetta eigi að vera. Að sjálfsögðu á málefnalegt og uppbyggilegt innlegg þingmanna, hvort sem þeir koma frá stjórn eða stjórnarandstöðu, að vera tekið til skoðunar og sem betur fer gerist það nú alltaf af og til að þingmál tala svo fyrir ágæti sínu sjálf að þau fást samþykkt. Tíðarandinn hefur þó verið mismunandi í þessum efnum. Ég held að það hafi komið kaflar þar sem þetta hefur þokast í rétta átt, þar sem mál hafa meira fengið að njóta ágætis síns án tillits til þess úr hvorri fylkingunni, stjórn eða stjórnarandstöðu, þau eru sprottin. Það eru líka til önnur tímabil í þessari sögu. Einhvern tímann var mér sagt að á viðreisnarárunum hefði það verið vinnuregla að stjórnarandstaðan fengi ekkert í gegn og á 10. áratugnum var ansi erfitt uppdráttar oft með mál frá stjórnarandstöðu, svo mikið man ég að það gekk upp og ofan.

Þegar ég byrjaði hér á þingi fyrir margt löngu kvartaði ég einmitt undan þessu sama. Mér fannst frumvarpssmíð og tillögugerð sem maður stóð í hafa takmarkað upp á sig fyrstu árin mín í stjórnarandstöðu og ég bar mig saman við reyndan þingmann sem þá sat á þingi, Geir Gunnarsson. Hann sagði að ég hefði alveg misskilið þetta. Það að þingnefndir ættu að afgreiða tillögur almennt væri mikill misskilningur, það væri eitt meginhlutverk þingnefnda að drepa vitlausar tillögur. Þar væru þær best svæfðar. Það má því nálgast þetta frá ýmsum hliðum. Við vitum líka að oft eru þingmál flutt til þess að vekja athygli á þeim en ekki endilega með það í huga að líklegt sé að þau hljóti afgreiðslu.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi líka samkeppnisumhverfi nýsköpunarstarfs. Ég kom inn á það í framsöguræðu minni og það er að sjálfsögðu mikilvægur þáttur þessa máls. Ég held fullyrða megi, og ég hef fyrir því orð manna sem gjörþekkja starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja og hafa reyndar barist fyrir þessum málum lengi, að með þessum breytingum, verði þær lögteknar, sé starfsumhverfi og samkeppnisskilyrði nýsköpunarstarfs á Íslandi orðið með því allra besta, ef ekki það besta sem þekkist í heiminum. Fyrir því má færa þau rök m.a. að hér er almennt skattalegt umhverfi atvinnulífs hagstætt. Hér eru lágir skattar á hagnað fyrirtækja. Launatengdur kostnaður hefur verið með því lægsta sem þekkist vegna þess að við erum ekki að uppistöðu til með atvinnulífstengt almannatryggingakerfi heldur er það fjármagnað sjálfstætt með almennum skatttekjum, ólíkt þýska kerfinu og öðrum slíkum.

Þegar þetta bætist við, síðan gætu einhverjir nefnt jafnvel hagstætt gengi krónunnar í þágu þess að mælt í erlendri mynt er starfsumhverfið hagstætt, er hægt að færa fyrir því rök að umhverfið hér nú sé með því allra, allra besta sem boðið er upp á. Ég hygg að það standist alveg skoðun að þetta sé sambærilegt við það sem best gerist í Noregi, Kanada og fleiri löndum sem menn bera sig gjarnan saman við. Enda er einn tilgangur þessa frumvarps, og sá sem ég bind ekki síst vonir við, að þetta verði þess valdandi að rannsóknar- og þróunarstarf, t.d. í stórum fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem eru með starfsemi hér heima en líka víða um lönd og hafa sumpart verið að útvista verkefnum eða byggja upp erlendis á undanförnum árum, ekki síst meðan skilyrðin hér voru óhagstæð vegna mjög sterks gengis á gjaldmiðlinum — að þetta leiði til þess að slík starfsemi verði nú byggð upp hér heima, ráðist verði í ný verkefni í staðinn fyrir að vista þau annars staðar. Þetta er ekki bara ætlað fyrir ný fyrirtæki og ný verkefni heldur líka fyrir aukin umsvif slíkrar starfsemi í starfandi og rótgrónari fyrirtækjum.

Varðandi það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vék að, hvort menn þurfi að stofna ný fyrirtæki utan um verkefnin, þá þarf alls ekki svo að vera. Ef menn leggja sín gögn fyrir og fá þá skráningu sem er forsenda þess að viðkomandi fyrirtæki með verkefni sem það hefur í huga fáist flokkað og skráð sem nýsköpunarfyrirtæki, þarf það ekki að vera nýtt í skilningnum „nýstofnað“ eða með nýja kennitölu. Alls ekki. Vonandi verður þetta til þess að ýta fyrirtækjum sem kannski hafa lítið sinnt þessum þáttum innan eigin vébanda út í slíkt. Það er sérstaklega tekið á því hvernig hátta skuli til þegar fleiri en eitt fyrirtæki sameinast um verkefni. Sömuleiðis er tekið á því ef viðkomandi verkefni nýtur jafnframt ríkisstyrkja úr annarri átt, þá eru sérstakar reglur um hvernig er búið um heildarstuðninginn.

Allt þarf þetta að sjálfsögðu að samræmast reglum Evrópska efnahagssvæðisins, enda hefur verið tilkynnt um frumvörpin til stofnunarinnar og hún gerir úttekt á því að þetta sé í samræmi við þær reglur um ríkisstuðning við nýsköpunarstarfsemi sem menn eiga að fara eftir. Ég sé ekki ástæðu til að halda annað en að það sé fullkomlega í samræmi við þær, samanber að þetta er ekki síst sniðið að norskri fyrirmynd. Ég held að ekkert hér víki frá þeim í þeim skilningi að við þurfum að óttast það. Stærstur hluti landsins er þar fyrir utan byggðaþróunarsvæði samkvæmt evrópskum skilgreiningum þannig að ríkisstuðningur er heimill. Einnig minni ég enn og aftur á að hið evrópska regluverk gerir ráð fyrir því að beina megi stuðningi til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem þannig eru flokkuð sérstaklega. Svo vill nú til að stærstur hluti íslenskra fyrirtækja fellur undir þá flokkun miðað við hinar evrópsku viðmiðunarreglur um starfsmannafjölda eða ársveltu. Því mundi í afar fáum tilvikum reyna á að sá ríkisstuðningur eða þær hvataaðgerðir sem hér eru á ferðinni væru ekki heimilar.

Ég lagði til að frumvörpunum yrði vísað til efnahags- og skattanefndar, einfaldlega vegna þess að hrygglengjan í þeim er skattalegs eðlis og ég tel að það sé heppilegast að sú nefnd hafi forsvar fyrir málinu. Hér var réttilega bent á að iðnaðarnefnd mætti gjarnan fá málin til umsagnar, sérstaklega það sem snýr að hinu almenna lagaumhverfi en ekki skattaþáttunum beint.