138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum kannski komin pínulítið út fyrir nýsköpun en þó ekki, má segja, þetta er líka nýsköpun, þ.e. að endurmóta þingsköpin.

Í stuttu máli sagt er það þannig að þegar stjórnarskrárbreytingar urðu hér á Alþingi 1991 og Alþingi var gert að einni málstofu þá var uppi mikil metnaður til þess að endurskipuleggja og betrumbæta margt í störfum þingsins. Nefndasvið tók til starfa og fleira í þeim dúr. Sem og gerðist það þá í fyrsta skipti, að ég hygg í alllangan tíma, að stjórnarandstæðingar tóku að sér forustu í nokkrum þingnefndum á grundvelli samkomulags sem þá var gert milli stjórnar og stjórnarandstöðu um slíkt. Ég hygg að kjörtímabilið 1991–1995 hafi einir þrír stjórnarandstæðingar verið í forsvari fyrir nefndum og aftur að hluta til á kjörtímabilinu 1995–1999, m.a. var þá sá sem hér stendur formaður sjávarútvegsnefndar í ein þrjú ár og á einni tíð var hæstv. utanríkisráðherra formaður heilbrigðisnefndar og eru af því sagðar nokkrar sögur. En því miður dagaði þetta síðan uppi og meiri hlutinn sem við tók eftir 1999 bauð ekki upp á þetta fyrirkomulag áfram þannig að það dó þarna drottni sínum og hefur í raun ekki verið endurvakið síðan. Ég hef alltaf viljað halda þessum möguleika opnum og ég nefndi þetta ítrekað í hörðum umræðum um þingskapalagabreytingar í fyrra eða hittiðfyrra sem mögulegt mótvægi við að þrengt væri að rétti stjórnarandstöðu til málflutnings og ræðutíma og öðru slíku. Það þarf að vera hér eitthvert slíkt jafnvægi sem er útfært með sanngirni, sem getur falið í sér aukna hlutdeild í forustustörfum í þinginu eða sterkari vígstöðu hér úr ræðustól eða í málflutningi.

Það sem væri auðvitað langáhrifaríkast, hygg ég, til að þróa þessa hluti áfram væri — ég er hins vegar ekki að mæla með því eða biðja um það — að hér sæti minnihlutastjórn við völd í nokkur ár því þá gerist þetta sjálfkrafa, að menn verða að semja um þessa hluti og þingið styrkir yfirleitt stöðu sína m.a. (Forseti hringir.) í gegnum hluti af þessu tagi þegar þannig ástand ríkir.