138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[17:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég vil í fyrstu fagna hjartanlega því frumkvæði sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur sýnt með framlagningu þessarar þingsályktunartillögu og taka sérstaklega undir lokaorð ræðu hennar þar sem hún ýjar að því að það sé hreint og klárt hneyksli hvað við í rauninni erum skammt á veg komin í að búa þessari mikilvægu atvinnugrein, ferðaþjónustunni, sómasamlegt umhverfi hvað varðar rannsóknir, áætlanir og að við sýnum ferðamennskunni ekki þá virðingu sem hún á skilið.

Ég deili áhyggjum af stöðu mála með flutningsmanni og tek undir það sem segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Sem ferðamannaland er Ísland kynnt á grundvelli hreinnar óspilltrar náttúru þar sem saman fer sérstætt og fjölbreytilegt landslag og ósnortin víðerni.“

„… og er hálendið þannig mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustuna og órjúfanlegur hluti af aðdráttarafli margra svæða.“

Lykilspurningin er kannski þessi: Hvenær hætta ferðamenn sjálfir að njóta náttúrunnar vegna þeirrar ferðamennsku sem þar hefur byggst upp og vegna of mikils fjölda annarra ferðamanna? Þetta er ef til vill lykilspurningin.

Við hljótum að horfa til þess að við þurfum á einhvern hátt að aðgangsstýra ferðaþjónustu og ferðamönnum inn á þetta land, að nær byggð byggjum við upp staði sem geta tekið á móti miklum fjölda ferðamanna og geta verið undir miklu álagi, en á miðhálendinu séum við að horfa til þess að snerta ekki allt of mikið við stöðunum. Þetta tengist kannski að einhverju leyti þeirri umræðu sem hefur borið á góma hvað varðar okkar heitu laugar og sundlaugarstaði, þar sem menn hafa horft til þess að svo gjarnan mundu þeir vilja gera meira út á þær heitu laugar sem við eigum á miðhálendinu, en um leið og við gerum meira út á þær og auglýsum þær upp, þá eru þær búnar að missa aðdráttarafl sitt. Hvar liggur þessi fína lína?

Ég held að lykilmarkmiðið með því sem hér er verið að hugsa sé að horfa til þess að byggja upp staði sem geta tekið á móti miklum fjölda, ákveðnar týpur t.d., í þessu tilviki af sundlaugum eða heitum laugum sem geta tekið á móti mörgu fólki en haldið svo öðrum heitum laugum svolítið fyrir utan radarinn. Þá erum við að horfa til þess að geta með einhverjum hætti í gegnum aðgangsstýringu stýrt tekjugrundvöll undir það sem við ætlum að fara að gera, þ.e. það kosti þá meira að fara á þá staði sem færri koma á. Þá erum við um leið farin að skapa tekjugrundvöll undir það að byggja upp þjónustu á þeim stöðum sem við viljum fá fleiri og um leið að geta haldið betur utan um það hvert fólk fer á hálendinu og hvernig.

Það er þá hin hliðin á þeim peningi, þ.e. réttindamál leiðsögumanna. Leiðsögumenn hafa lengi barist fyrir því að fá starfsstétt sína með einhverjum hætti viðurkennda hér á landi, þannig að við reynum með einhverjum hætti að styrkja fagþekkingu þeirra en ekki hleypa hverjum sem er með hvaða hóp sem er inn á landið. Þá um leið erum við farin að horfa til þess að hingað komi ferðamenn með bíla fulla af mat, keyri um og kaupi ekki eina einustu þjónustu af okkur, ekki einu sinni leiðsögn. En með því, eins og ég segi, að aðgangsstýra hópum manna um hálendið erum við um leið að skapa möguleika til þess að geta tekið inn tekjur sem geta þá mætt þeim kostnaði sem af þessu hlýst.

Þetta var það sem ég vildi sagt hafa. Ég hvet þingið til að taka fast á þessu máli, hratt og örugglega. Ég held að hér sé á ferð mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir okkar allra mikilvægustu atvinnugrein.