138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[18:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er afar gott mál á ferðinni enda, eins og kom fram í máli hv. flutningsmanns Sivjar Friðleifsdóttur, eru hér þingmenn úr öllum flokkum meðflutningsmenn. Í stuttu máli væri hægt að afgreiða þessa tillögu með því að segja að hún væri löngu tímabær og að sjálfsögðu ættum við að afgreiða hana strax. Ég hygg að við eigum eftir að ná henni hér í gegnum þingið með góðri umfjöllun bæði í umhverfis- og iðnaðarnefnd og ég mundi allra helst, frú forseti, gera það að tillögu minni að tillagan færi til umfjöllunar í báðum nefndunum, jafnvel á sameiginlegum fundum. Það er reyndar útfærslumál en mér finnst hún svo sannarlega eiga heima í umhverfisnefnd og auðvitað líka í iðnaðarnefnd því að undir hana heyrir ferðaþjónustan meðal annars.

Fyrsta spurningin sem kannski þarf að svara í þessari vinnu er: Viljum við eina milljón ferðamanna? Ég hygg að við núverandi aðstæður væri það að stefna í hreinan voða fyrir náttúru Íslands að fá hingað eina milljón ferðamanna. Það sem við þurfum að gera er ekki bara að fjölga ferðamönnum jafnt og þétt heldur að velja þá. Að því leyti til er þessi tillaga gott tæki til að móta ekki bara svokallaða nýtingaráætlun heldur einnig í raun og veru atvinnustefnu, af því að málið snýst um það hvers konar ferðaþjónustu við viljum byggja upp.

Ef við byggjum upp atvinnu sem laðar að fáa ferðamenn sem eyða miklum gjaldeyri eða afla mikils gjaldeyris fyrir þjóðina gerir það auðvitað sama gagn og að fá hér mjög marga sem eyða mjög litlu. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er mjög misjafnt hvernig búnir menn koma til Íslands. Við eigum, held ég, að reyna að fiska eftir ferðamönnum um allan heim sem leggja það á sig að koma alla leið til Íslands kannski einu sinni á ævinni í svolítið flottan túr, ef ég má segja svo, frú forseti, og eru tilbúnir til að borga fyrir það. Þetta gerir fólk um allan heim, það fer yfir hálfan hnöttinn til þess að heimsækja tiltekinn þjóðgarð í Afríku eða annars staðar og greiðir fúlgur fjár fyrir það. Sjálf hef ég borgað mig inn í þjóðgarða, t.d. í suðurhluta Afríku, og hef ekki séð eftir einni krónu eða einni evru sem í það hefur farið enda var það hluti af stýringunni og það er auðvitað hluti af upplifuninni líka að bjóða ekki mönnum svikna vöru, þ.e. að bjóða ekki mönnum þúsund manns á Hakinu á sömu fimm mínútunum, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á í sinni ræðu. (Gripið fram í.) 1.800 sagði hún.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að íslensk náttúra, ósnortin íslensk náttúra sé eitthvað sem þessari þjóð hefur tekist — eða nokkrum hluta hennar — að fjalla um þannig að hún hafi ekkert gildi. Nú kann það að vera nokkuð stórt upp í sig tekið en verðmæti ferðaþjónustunnar felast í ósnortinni náttúru. Það er ástæða þess að fólk kemur hingað. Auðvitað viljum við líka fá fólk hingað á fundi og ráðstefnur en allir sem hingað koma reyna að sjá eitthvað af Íslandi, það segir sig sjálft. Þess vegna er mjög mikilvægt að við slíka nýtingaráætlunargerð byggi þolmarkamatið á þeim ramma sem náttúruverndarlöggjöfin setur okkur og á, að mínu viti, nokkuð stífum kröfum þar um.

Það er auðvitað eins og segir hér svo vel í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að skipuleggja ferðamennsku á þann hátt að hún grafi ekki undan tilvist sinni.“

Þetta er mergur málsins. Ef við gerum þetta vel og vöndum okkur við undirbúninginn fáum við bæði meira í ríkiskassann og náum líka að ganga skikkanlega um íslenska náttúru og í raun að nýta hana á sjálfbæran hátt.

Hvað varðar tekjuöflunina er ég fylgjandi því að lagt verði á einhvers konar umhverfisgjald eða ferðamannaskattur, það skiptir ekki öllu máli hvað það er kallað. Aðalmálið við útfærslu þeirrar skattlagningar er hvernig tekjustofnunum er varið. Að mínu viti þarf auðvitað að vera markaður tekjustofn sem fer ekki í neitt annað en beinlínis að byggja upp þjóðgarðana, friðlýst svæði annars vegar og grunnþjónustu við ferðamenn hins vegar. Við Íslendingar höfum um árabil vanrækt það, t.d. jafnsjálfsagður hlutur og stígalagning í þjóðgörðum er að mestu unninn af breskum sjálfboðaliðum sem koma hér á hverju sumri og eyða sumarfríinu sínu í það að leggja stíga, t.d. í Skaftafelli. Allt það sem ríkið hefur í raun og veru átt að sjá um hefur verið vanrækt, það verður bara að segjast alveg eins og er, og í það hafa ekki farið peningar. Þess vegna er svo mikilvægt að þegar svona tekjustofn er búinn til sé það skýrt hvert hann eigi að fara og hvernig hann eigi að skiptast. Við vitum að það verður alltaf togstreita á milli ráðuneyta og annað slíkt og allt þarf að vera frágengið til að menn viti hvað þeir hafi á milli handanna og að tekjustofninn sé markaður, hvernig sem hann er tekinn.

Auðvitað er það álitamál hvort beinlínis er hægt að skattleggja bara erlenda ferðamenn, ég held t.d. að EES-reglur banni okkur það. Spurningin er hvort þetta eigi að vera gistináttagjald eða gjald fyrir að fara á tiltekinn stað, það er enn ein útfærslan, en ég held að við verðum þá líka að gera okkur grein fyrir því að það getur ekki verið eitt gjald fyrir útlendinga og annað fyrir Íslendinga. Þetta er heildarpakki, ef svo má segja, ég held alla vega að sú útfærsla gæti orðið okkur erfið.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sett á fót nefnd til að undirbúa tillögur að umhverfisgjaldi, ég vil leggja ríka áherslu á það og er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að það verði ekki bara lagt á fljótt heldur að það verði uppbyggt og því varið með þeim hætti sem verður náttúruverndinni og ferðaþjónustunni til góða. Ef engin er ósnortin náttúran verður kannski minna um arðbæra ferðaþjónustu.

Að lokum, og það er atriði sem ég hef nefnt við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, erum við auðvitað líka að tala hér um skipulagsmál sveitarfélaganna. Nokkuð hefur verið rætt um það á undanförnum þingum og nokkrir hæstv. umhverfisráðherrar hafa gert atrennu að því að koma svokölluðu landsskipulagi í gegnum hið háa Alþingi og enn ein tilraun verður gerð til þess í vetur. Nýtingarstefnan ein og sér getur verið góð og um hana þarf auðvitað að vera samkomulag og útfærsla og annað slíkt, en það skiptir ekki minna máli að skipulagsmálin séu í takt við nýtingarstefnuna. Þetta virkar ekki öðruvísi. Ef sveitarfélög eru ekki tilbúin til þess að vinna í samræmi við nýtingarstefnuna verður lítið úr henni. Að því leyti til er það lykilatriði að sveitarfélögin taki þátt í þeirri vinnu og einnig að þetta sé hluti af stefnu um nýtingu landsins alls, sem er auðvitað ekkert annað en landsskipulagsstefna, skipulag er bara spurning um nýtingu lands, hvernig atvinnu þú vilt byggja upp og hvernig þú ætlar að nýta það. Þetta tvennt þarf að tengja saman svo að úr verði tæki sem virkar vel. Í rauninni erum við líka að tala þá um atvinnutæki eða atvinnustefnu þó að það sé kannski aðeins fjarlægara núna. Ég hygg að með því að vinna þetta með þessum hætti gætu stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, verið með í höndunum bæði nauðsynlegt skipulagstæki og líka loksins einhverja framtíðarsýn á það hvernig við ætlum að byggja upp þennan mikilvæga atvinnuveg hér á landi.