138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[18:22]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er komin fram og lýsa yfir mikilli ánægju með efni hennar og þeirra þátta sem til er tekið í henni. Ég lýsi um leið yfir mikilli eftirsjá að vera ekki einn af flutningsmönnum þessarar ágætu tillögu.

Ég tek reyndar undir það sem fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur fyrr í umræðunni að mér þætti full ástæða til þess að kanna hvort ekki væri hægt að vinna landnýtingaráætlun á skemmri tíma en hér er tilgreint, en hér segir að henni eigi að vera lokið fyrir árslok 2015.

Ég vil líka taka undir málflutning hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um hversu marga ferðamenn Íslendingar vilji fá hingað til landsins vegna þess að það er mín skoðun, eins og reyndar mátti heyra á máli hv. aðalflutningsmanns þessarar tillögu, að staðir eins og Landmannalaugar eru komnir alveg að þolmörkum, a.m.k. á háannatíma yfir sumarið og full ástæða til að fara að huga að því hvað við viljum í raun og veru gera með þessa staði.

Ég vil líka taka undir það að auðvitað eiga Íslendingar að marka sér stefnu í þeim málum hvað varðar hvers lags ferðamenn við viljum fá hingað til landsins. Hagsmunir okkar hljóta að liggja í því að fá þá tegund ferðamanna sem skilja mikið eftir sig og eyða miklum peningum, svo það sé bara sagt alveg eins og það er.

Ég vil líka taka undir það sem fram kemur í greinargerð með þessu frumvarpi þar sem vitnað er í, að ég held, ferðaþjónustuaðila varðandi uppbyggingu þjóðvega og uppbyggðra vega á hálendinu sem ég tel mikla vitleysu. Ég tel það algjörlega út úr öllum kortum að fara að setja uppbyggða þjóðvegi með malbiki og tilheyrandi umferð ekki bara á hálendinu heldur í þeim byggðum sem liggja að helstu hálendisvegum, t.d. Sprengisandi og Kili. Þeir sem sjá í hillingum möguleika á því að fara í mikla landflutninga á vörum um Kjöl verða að gera sér grein fyrir því að til þess að tengja þá umferð alla þarf að fara í gegnum eitt stærsta sumarbústaðahverfi landsins og styrkja allt það vegakerfi til þess að það þoli þungaflutninga á borð við þá sem talsmenn þessara hugmynda láta sig dreyma um.

Þá þykir mér líka mjög góður punktur í greinargerðinni að með svona áætlun er hægt að skipuleggja uppbyggingu skála og aðstöðu á hálendinu sem einmitt, eins og segir í greinargerðinni, virðist hafa verið mjög handahófskennt og sums staðar stefnir í óefni í þeim efnum.

Ég er mjög hlynntur því að menn reyni með einhverjum hætti að finna leið til þess að afla tekna til þess að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn á þeim svæðum sem hér um ræðir. Ég nefni t.d. stað eins og Dyrhólaey, sem er gríðarlega mikið sóttur af ferðamönnum, heilu og hálfu rúturnar koma þarna yfir sumarið, en þar hefur engin salernisaðstaða verið fyrir ferðamenn. Mér þætti mjög eðlilegt að það væri einfaldlega innheimt gjald á staðnum til þess að standa straum af uppbyggingu slíkrar aðstöðu vegna þess að sóðaskapurinn sem fylgir því að hafa ekki þessa aðstöðu er mikill.

Ég sótti á dögunum mjög fróðlegan fyrirlestur á Selfossi sem bandarískur sérfræðingur flutti um gerð sérstakra stíga fyrir mótorhjól. Mörg okkar sem hafa gaman af útivist og fjallgöngum þola ekki hljóðin í fjórhjólum og mótorhjólum í óspilltri náttúru. Hins vegar er það staðreynd að þessi tæki eru komin til þess að vera og þar sem eru skipulagðir stígar fyrir bæði vélhjól og fjórhjól er hægt að koma í veg fyrir utanvegaakstur og einnig stýra því hvar slík iðja fer fram þannig að það sé ekki að gerast á nákvæmlega sama stað og menn eru í hestamennsku eða í göngum. Ég tel því að það sé mjög mikilvægt að menn horfist einfaldlega í augu við þann veruleika sem blasir við þar. Það hefur orðið gríðarleg fjölgun í mótorhjólaeign, hvort sem það eru mótorkrosshjól eða fjórhjól, og það verður einfaldlega að bregðast við því og móta stefnu í þeim efnum.

Varðandi gjaldtökuna vil ég líka nefna að í sumum löndum sem byggja mikið á ferðaiðnaði, t.d. í Keníu og víðar í Afríku, eru ferðamenn skyldaðir bæði til þess að kaupa leyfi til að ganga á ákveðnum stöðum og að ráða heimamenn sér til fylgdar og þar er því um verulega atvinnuskapandi aðgerðir að ræða. Það hefur líka í för með sér ákveðna stýringu á þeim fjölda ferðamanna sem koma á svæðið en með því að gefa út sérstök leyfi er hægt að tryggja að ekki sé of mikill fjöldi t.d. á ákveðnum gönguleiðum og að dreifa fjöldanum betur yfir árið. Það er hægt að gera líka í annarri tegund af ferðamennsku vegna þess að viðfangsefni, a.m.k. landsbyggðarinnar í þessum efnum hefur verið beint mikið að því að reyna að teygja úr ferðamannatímanum. Ég held að menn ættu líka að hugsa til þess í þessari áætlanagerð allri. Þá getur farið fram saman slík tekjuöflun og einhvers konar stýring þannig að menn væru að reyna að gera sem mest úr hábjargræðistímanum í þessum efnum.

Ég vil ítreka að ég fagna mjög þessari þingsályktun og styð hana heils hugar.