138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:34]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir fyrirspurnina. Það er búið að sá fyrir breytingum og uppskeran verður vonandi fljótlega. Þetta eru seinsprottnir ávextir en þeir koma.

Ég er innilega sammála honum um þetta. Garðyrkjan er hin græna stóriðja Íslands, hún á bjarta framtíð og er auk þess nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Ég minni bara á að Hollendingar flytja út eina breiðþotu á hverjum degi af afskornum rósum en eru þó með olíukynt rafmagn. Staðan er erfið út af orkuframkvæmdum til álbræðslna. Orkufyrirtækin eru afar skuldsett, sjá ekki fyrir endann á endurfjármögnun, hvað þá nýframkvæmdum. Samt einblína ótrúlega margir þingmenn á það að reisa eina stóriðju eða tvær í viðbót og klára rafmagnið okkar. Samningar við álbræðslurnar eru nánast til skammar. Ég vildi sjá að gerðir yrðu Helguvíkursamningur við garðyrkjuna þar sem veittur var 20 milljarða afsláttur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (BJJ: Og af hverju er það ekki gert?) Já, af hverju er það ekki gert? Vegna þess að þið hafið sóað orkunni í annað en græna stóriðju. (Gripið fram í.) Garðyrkjan á skilyrðislaust rétt á að sitja við sama borð og aðrir orkunotendur, stórnotendur. (Gripið fram í.) Þannig er málið. (Gripið fram í.)

Varðandi ávextina var gerður og framlengdur búvörusamningur við garðyrkjubændur 22. júlí. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur verið í nánu starfi við garðyrkjubændur, kallað þá til fundar. Eins hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fylgt þessu máli mjög vel eftir. Það var líka sett á stofn nefnd, viljayfirlýsing um að skoða starfsumhverfi garðyrkjunnar. Sú vinna er á fullri ferð með fulltrúum sjávarútvegsráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og garðyrkjubændum þannig að ég vonast einlæglega til, og ég held að hv. fyrirspyrjandi geri það líka, að við sjáum fyrir endann á þessum vandamálum. Það þarf að endurskoða gjaldskrána og það er líka verið að endurskoða raforkulögin.

Við þurfum bara að taka höndum saman og fara að hugsa (Forseti hringir.) um aðra stóriðju en álbræðslu, hina grænu stóriðju Íslands, garðyrkjuna, (Gripið fram í.) kalda vatnið, hreina loftið og margt fleira.