138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í þeirri umræðu sem við höfum hlýtt á er m.a. verið að ræða þau áform ríkisstjórnarinnar að hækka raforkuverð til garðyrkjubænda og reyndar raforkuverð til allra notenda í landinu. Menn sjá mjög augljóslega afleiðingarnar af slíkri skattheimtu. Það dregur úr störfum, framleiðslu og umsvifum.

Þetta undirstrikar þá hættu sem fylgir efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að draga saman í ríkisútgjöldum, það er samdráttur í hagkerfinu okkar og þess vegna er það mjög slæm efnahagsstefna að ætla sér að fara nú í skattahækkanir í ofanálag. Þetta er augljóst mál þegar menn horfa á orkuiðnaðinn, garðyrkjuna, stóriðjuna og alla þessa þætti. Það er kannski ekki alveg jafnaugljóst þegar talað er um almennar skattahækkanir, en áhrifin eru þau sömu. Áhrif hærri skatta við þær aðstæður sem nú eru í íslensku þjóðfélagi eru akkúrat þessi sem er verið að lýsa hér hvað varðar garðyrkjubændur og þau verða þau sömu hvað varðar allt atvinnulíf landsins.

Þess vegna er áhugavert fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með umræðum núna í Danmörku, hvernig Danir hyggjast bregðast við sínum efnahagsvandræðum. Þar hafa menn komið auga á að það er nauðsynlegt að menn grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari samdrátt og hafa áhyggjur af því að menn reka þar ríkissjóð með halla. Þar hafa menn bent á þá leið út úr þeim vanda að fara sömu leið og við sjálfstæðismenn höfum lagt upp með hér á Íslandi, þ.e. að breyta hvað varðar skattlagningu lífeyrissjóðanna. Einn helsti sérfræðingur Dana á því sviði, herra Jørgen Svendsen, sem er mjög fróður maður um lífeyrissjóði, hefur einmitt bent á hversu skynsamleg leið þetta er fyrir Dani. Þess vegna skora ég á þingmenn alla að skoða nú hvort ekki sé affarasælla fyrir þessa þjóð að fara þá leið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt upp með, að leysa vanda ríkissjóðs með þeim aðferðum sem við höfum nefnt hvað varðar lífeyrissjóðina og með því að auka framleiðsluna, auka umsvifin í efnahagslífinu en fara ekki þá leið sem ríkisstjórnin hyggst nú leggja upp með með aukinni skattheimtu með þeim afleiðingum sem við sjáum svo gjörla einmitt í þeirri umræðu sem hér var hafin af hálfu hv. 3. þm. Suðurk.