138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að vekja máls á þessu. Það er mjög þarft og brýnt. Við þingmenn heyrum að hér sé þverpólitísk samstaða um að koma þurfi til móts við sjónarmið garðyrkjubænda. Þetta hefur legið fyrir í allt sumar. Ég sit í iðnaðarnefnd og þangað komu garðyrkjubændur til okkar snemmsumars, áður en við fórum að tala um Icesave og áður en við fórum að tala um ESB. Allir voru sammála um það í nefndinni að málið væri brýnt og að á því þyrfti að taka.

En hvað hefur gerst? Það hefur ekki nokkur skapaður hlutur gerst. Fulltrúar garðyrkjubænda fá ekki einu sinni viðtal hjá ráðherra og væri ágætt ef hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar gæti aðeins útskýrt fyrir okkur hvers vegna það hefur ekki gerst. Hv. þingmaður kemur hér upp og hefur yfir sömu tugguna enn og aftur, að nú sé þetta allt saman gömlu ríkisstjórnarflokkunum að kenna og það sé ekki til nein orka í landinu. Hvers lags eiginlega vitleysa er þetta, hæstv. forseti?

Vinstri grænir og Samfylkingin hafa setið í ríkisstjórn frá því í febrúar. Þeir hafa öll spil á hendi til að taka á þessu máli. Það hafa þeir hins vegar ekki gert. Það er í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að ýmsu er lýst yfir í orðum — en hvað gerist svo? Hlutirnir eru hér tuggðir upp í þingsalnum, að menn styðji hitt og þetta, en svo gerist ekki neitt. Okkar stóra verkefni hér snýst um að byggja upp atvinnuvegina að nýju, fjölga störfum, auka gjaldeyristekjur, það er verkefnið — en hvað gerist? Ekki nokkur skapaður hlutur.