138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að víkja að öðru máli. Alþingi er nú með til umfjöllunar nýtt frumvarp í tengslum við Icesave-málið, breytingar á ríkisábyrgð frá því sem gert var í þinginu í sumar. Ég ætla ekki að fara ítarlega í það mál en eins og við vitum er staðan sú að ríkisstjórnin er að reyna að keyra í gegnum þingið frumvarp sem felur í sér að þeir fyrirvarar sem þingið setti í sumar verða að litlu sem engu og öryggisákvæðin í lögunum sem samþykkt voru 28. ágúst eru meira og minna tekin úr sambandi.

Það vakti athygli mína við 1. umr. um þetta mál að hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, talaði í þessu samhengi um að menn þyrftu svo sem ekki að hafa miklar áhyggjur. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði, með leyfi forseta:

„Það hefur líka komið fram hér að ef okkur er misboðið er það nú einu sinni þannig að íslenska Alþingi getur hvenær sem er fellt þessa ríkisábyrgð úr gildi. Hafa menn ekkert áttað sig á því?“

Í sama streng tók hæstv. utanríkisráðherra sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni.

Ég velti fyrir mér hver hv. þm. Guðbjartur Hannesson telur að viðbrögð alþjóðasamfélagsins yrðu ef við afnæmum ríkisábyrgð eftir einhver ár vegna samnings sem við gerum og staðfestum með afgreiðslu ríkisábyrgðar hér á Alþingi. Ef hv. þingmaður hefur jafnmiklar áhyggjur af viðbrögðum eða afstöðu alþjóðasamfélagsins, svo miklar áhyggjur að hann telur að við Íslendingar eigum að fallast á allar kröfur Breta og Hollendinga núna í þessari umferð, hver telur hann að áhrifin yrðu ef við eftir á (Forseti hringir.) kipptum ríkisábyrgðinni úr sambandi og gengjum í rauninni þar með frá samningunum sem ríkisábyrgðin tekur til?