138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það gladdi mig geysilega að heyra krata tala um mikilvægi gjaldeyrissparandi áhrifa af landbúnaði. Það tók ekki nema 93 ár að fatta þetta en gott að það hefur loksins komist til skila.

Ég ætlaði að tala um öðruvísi gjaldeyrissparnað í fyrirspurn til hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, jafnvel enn stærri gjaldeyrissparnað en liggur í landbúnaðinum. Hann varðar Icesave-málið. Forsagan er sú að fyrir nokkrum dögum lýsti hv. þm. Lilja Mósesdóttir því yfir að hún treysti sér ekki til að styðja Icesave-frumvarpið nýja, frumvarp Breta og Hollendinga sem ríkisstjórnin hefur komið með inn í þingið, skiljanlega. Hv. þingmaður hefur talað af mikilli skynsemi og rökfestu í þessu máli og sýnt það og sannað að hún er þingmaður af þeirri gerð sem ég held að kallað hafi verið eftir þegar fólk vildi sjá breytingar í íslenskum stjórnmálum.

Þingmaðurinn nefndi það reyndar þegar þetta var tilkynnt að á sínum tíma hefði afstaða sjálfstæðismanna, eða óvissa um hana, orðið til þess að svo fór sem fór. Ég get svo sem staðfest að vinstri grænir höfðu margir hverjir miklar áhyggjur af því og töldu víst að sjálfstæðismenn mundu á endanum hleypa þessu máli í gegn og vildu því reyna að gera sem best úr málinu, ella hefði líklega verið áfram meiri hluti fyrir því einfaldlega að fella Icesave-samningana. Þetta stafaði ekki hvað síst af því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gaf frá sér mjög misvísandi skilaboð í fjárlaganefnd, hvaða ástæður svo sem voru fyrir því, og því vil ég spyrja hann núna:

Getur þingmaðurinn staðfest að hann muni sýna staðfestu í þessu máli, muni ekki gefa eftir hvað varðar þetta frumvarp sem hér er lagt fram, heldur greiða atkvæði gegn því og að aðrir þingmenn geti þá treyst því að á afstöðu hans sé að treysta? (Gripið fram í: … standa í lappirnar.) [Háreysti í þingsal.]