138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:06]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við búum við öfluga heilbrigðisþjónustu, á því er enginn vafi. Allar samanburðartölur sýna það. Allir vilja standa vörð um þessa grundvallarþjónustu. Það þýðir samt ekki að stöðnun eigi að ríkja í málaflokknum. Það má halda þjónustunni áfram góðri en með minni tilkostnaði. Til að ná fram breytingum þarf pólitískt þrek. Það þarf líka öfluga umræðu þar sem hlutirnir eru skýrðir út fyrir fólki á mannamáli. Ég vil taka þátt í slíkum breytingum þótt það kosti óvinsældir um stundarsakir. Ég er tilbúin til að beita mér fyrir slíkum breytingum.

Mörgum kann að þykja skrýtið að stjórnarandstöðuþingmaður hafi slíkan vilja. Að mínu mati geta stjórnmálaflokkarnir náð saman miklum árangri ef þeir bera gæfu til að vinna saman að breytingum sem spara peninga án þjónustuskerðingar. Á næstu árum þarf að spara í opinberum rekstri, og ekki bara á næstu 2–3 árum, miklu fleiri ár liggja undir. Á næsta ári á að spara um 5% í heilbrigðisþjónustunni og maður spyr: Er þetta hægt? Svarið er: Já, þetta er hægt.

Ég minni á að þegar ríkisstjórnin sem tók við árið 2007 lagði fram fjárlagafrumvarp sitt jukust útgjöld um 20% milli ára. Þetta var strax eftir kosningar. Mjög sérstakt, virðulegur forseti. En hvernig er best að spara? Á að skera flatt, á að skera niður um ákveðna prósentu eða á að forgangsraða? Að mínu mati er rétta svarið: Það á að forgangsraða. Spurningin er bara hvernig. Það þarf að ná fram kerfislægum breytingum og það er hægt. Á sínum tíma tókum við á slíkum kerfislægum breytingum í öldrunarþjónustunni og náðum fram miklum sparnaði án þess að skerða þjónustu. Núna þarf að ná fram kerfislægri breytingu á svokölluðum kragasjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Það er komin út skýrsla sem heitir Frá orðum til athafna og heilbrigðisnefnd hefur fengið kynningu á henni sem er aðgerðaáætlun um forgangsröðun á kragasjúkrahúsunum á næsta ári.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hve langt eru stjórnvöld komin með að forgangsraða á kragasjúkrahúsunum? Hvenær fáum við að sjá meira? Sú sem hér stendur telur að unnt sé að byggja áframhaldandi vinnu á þessari skýrslu.

En er nóg að stokka upp og ákveða hver gerir hvað á sjúkrahúsunum? Að mínu mati er svarið: Nei, það þarf að gera meira. Það eru möguleikar á verulegri hagræðingu án þess að skerða þjónustu, en hvernig er það unnt? Jú, við getum farið sömu leið og nágrannalönd okkar. Við getum ákveðið að standa í fullri alvöru undir þeim orðum að við viljum að heilsugæslan sé það þjónustustig sem nýtast eigi sem best, hún eigi að vera fyrsti viðkomustaður sjúklings. Þar á að halda utan um heilbrigðismál fólksins í landinu. Þar er þjónustan ódýrust.

Við getum minnkað álagið á dýrari úrræði, t.d. sérfræðiþjónustuna. En hvernig gerum við það, virðulegur forseti? Jú, með því að koma á svokölluðu valfrjálsu stýrikerfi að danskri fyrirmynd. Það má einnig kalla það valfrjálst tilvísanakerfi. Það byggist á því að sjúklingur getur valið um tvær leiðir. Hann getur valið að fara til heilsugæslunnar til að fá úrbót meina sinna og eftir atvikum tilvísun til sérfræðings ef á þarf að halda. Þessi leið er orðin ódýr, bæði hjá heilsugæslu eða eftir atvikum hjá sérfræðingi. Hann gæti líka farið hina leiðina, gæti valið að fara beint til sérfræðilæknis en þá mundi hann ekki njóta niðurgreiðslu frá ríkinu eins og í dag heldur borga reikninginn upp í topp sjálfur. Önnur norræn ríki hafa farið þá leið. Þau bjóða fólki ekki upp á það að fara beint í dýrustu úrræðin og gera kröfu á að skattpeningarnir fari í að borga reikninginn að mestu leyti. Þau hafa eðlilegt þjónustuflæði milli þjónustustiga.

Þeir erlendu aðilar sem hafa komið hingað margoft spyrja okkur: Hvernig í ósköpunum hafið þið efni á þessu eins og þið gerið þetta? Af hverju breytið þið þessu ekki? Þetta voru spurningarnar sem þið fenguð löngu fyrir bankahrun. Við höfðum kannski efni á þessu þá. Við höfum ekki efni á þessu núna, enda er þetta ekki betri þjónusta þegar upp er staðið. Á landsbyggðinni má segja að þar sé þetta danska kerfi í dag. Þar fer fólk yfirleitt til heilsugæslulæknis og svo eftir atvikum til sérfræðilæknis. Á höfuðborgarsvæðinu er þessu öfugt farið að verulegu leyti.

Að mínu mati mun það taka nokkur ár að koma þessu nýja kerfi á. Það þarf að efla heilsugæsluna, það þarf að ná inn fleiri heilsugæslulæknum og það lítur þokkalega vel út með það miðað við upplýsingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ég vil því að endingu, virðulegur forseti, spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Er vilji til að fara í stærri skipulagslegar breytingar (Forseti hringir.) eins og þá að efla heilsugæsluna og minnka álagið á sérfræðiþjónustuna?