138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Það er skemmtilegt að heyra hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur kenna nú við Huldu Gunnlaugsdóttur skýrslu síðan 22. september sem byggir á tillögum sem lagðar voru fram í tíð hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Svona geta menn, eða köttur, farið í kringum heitan graut af því að þeim þóknast ekki að halda sannleikanum á lofti hvað þetta varðar.

Í þessu verkefni stöndum við frammi fyrir viðamiklum og vandasömum verkefnum innan heilbrigðisþjónustunnar eins og við stöndum frammi fyrir viðamiklum verkefnum alls staðar í ríkisrekstri. Það kallar á fjárhagshagræðingu og það kallar á aukna faglega þróun. En það kallar á lykilspurningar, frú forseti, lykilspurningar sem eru spurningar um pólitískan vilja. Þær eru: Hvaða þjónustu á að veita? Hvar á að veita hana og hver á að veita hana? Þetta eru lykilspurningar sem þarf að svara.

Frú forseti. Við þurfum að koma okkur út úr þeim þankagangi sem við erum nú í, við þurfum að hætta að hugsa um hús þar sem þjónustan hefur verið veitt fram til þessa. Við þurfum að fara að hugsa um þjónustuna sjálfa eins og ágætur læknir, Þorvaldur Ingvarsson á sjúkrahúsinu á Akureyri, mælti svo snyrtilega í morgun á fundi heilbrigðisnefndar, hætta að hugsa um húsin og fara að hugsa um þjónustuna. Það er þankagangurinn sem við þurfum að tileinka okkur. Það mun kalla á sársaukafullar ákvarðanir. Mér er til efs að sá pólitíski kjarkur sé hjá þessari ríkisstjórn. Hún hefur ekki sýnt það í öðrum greinum í uppbyggingu atvinnulífs að hún hafi kjark. Hún hefur fram til þessa (Forseti hringir.) dregið úr í staðinn fyrir að gefa í.