138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum ræða um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu á vettvangi þingsins. Ég tek undir með hv. þm. Þráni Bertelssyni um að ég er stoltur af íslenskri heilbrigðisþjónustu sem við höfum byggt upp á undangengnum árum. Nærtækast er að líta til þess hvernig að málum er staðið núna þegar mikil flensa gengur yfir landið þar sem fólk á einum stærsta vinnustað landsins, á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, og reyndar víðar í þessari þjónustu vinnur ómetanlegt starf og stendur sig mjög vel undir miklu álagi.

Ég fagna því, frú forseti, að menn hafa gefið það út að standa eigi sérstakan vörð um grunnþjónustuna og heilsugæsluna í landinu. Það er þannig að þegar fólk ákveður búsetu og hugar að flutningi vakna fyrst upp spurningarnar: Hvernig er skólamálum háttað og hvernig er heilbrigðismálunum háttað? Þetta er hluti af grunnþjónustu sem hver fjölskylda þarf á að halda. Þess vegna er mikilvægt núna þegar við þurfum að hagræða í heilbrigðisþjónustunni að við göngum ekki um of á heilsugæsluna sem gegnir lykilhlutverki vítt og breitt um landið. Það er undirstaðan fyrir hverri byggð að til staðar sé öflug heilsugæsla vítt og breitt um landið. Því legg ég áherslu á að menn standi vörð um þá mikilvægu þjónustu.

Um leið og ég hvet hæstv. ráðherra til að hrinda ákveðnum verkefnum í framkvæmd, sem m.a. hefur verið unnið að að undanförnu, að sjálfsögðu þarf að skoða það vel, vil ég nefna sérstaklega hlutverk Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í því samhengi. Það er undirstöðuheilbrigðisstofnun á landsbyggðinni sem við þurfum að standa vörð um. Við þurfum að vanda okkur fyrst og fremst í því verkefni sem fram undan er. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það þarf að hagræða, við þurfum að spara og ég tel að það sé hægt, en við þurfum að standa vörð um ákveðin grunngildi eins og heilsugæsluna, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og náttúrlega þessi stóru sjúkrahús á suðvesturhorni landsins. Ég óska hæstv. ráðherra góðs gengis í verkefninu fram undan sem verður vandasamt.