138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[14:45]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli mínu kom ég inn á að ef þessu er frestað ótímabundið þá er í raun verið að fella þessi ákvæði úr gildi. Og með vísan til þess að ákveðin rök eru fyrir því að setja á fót embætti héraðssaksóknara, þá taldi ég vænlegra að leggja það til að gildistökunni yrði frestað enn um sinn í stað þess að ekkert yrði úr þeim áformum. Í rauninni er það þannig þegar við hugsum um stofnanir ákæruvaldsins að embætti ríkissaksóknara býr við þröngan kost og ríkissaksóknari hefur einmitt bent á að ef aukafjárveitingar fyndust til málaflokksins væri nær að styrkja embætti ríkissaksóknara eins og staðan er núna, því þar er mjög mikið álag.