138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[14:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, en hér virðist fara fram mikill uppeldistími. Því miður get ég ekki tekið þennan uppeldistíma sem var fluttur í þessari ræðu til mín, því ég raunverulega veit ekki hvert hv. þm. er að fara. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa nægar tillögur líka, meira að segja er horft til sjálfstæðistillagnanna í Danmörku, eins og kom fram í máli eins hv. þingmanns hér í ræðum í dag, þannig að ríkisstjórnarflokkana vantar frekar tillögur og þurfa að grípa til þeirra eldgömlu vinnubragða á krepputímum að hækka skatta og auka þar með atvinnuleysi. Hv. þm. ætti að líta sér nær og leggja frekar eitthvað betra til málanna en að ala hér upp aðra hv. þingmenn.

Ég hef gagnrýnt það áður að það er með ólíkindum að þessi ríkisstjórn fari fram á það við dómsmálaráðuneytið að þessir viðkvæmu málaflokkar þurfi að taka þátt í þessum niðurskurði og því frosti sem raunverulega er verið að búa til, því þetta eru mikilvægustu og viðkvæmustu málaflokkar sem nokkur þjóð getur fengist við.

Hv. þm. talaði um að hér inni væru einhverjir þingmenn sem létu sem svo að hrunið hefði ekki orðið. Ég ætla að varpa því til baka. Svo virðist vera að samfylkingarþingmenn átti sig ekki á því að hér hafi orðið bankahrun, því sparnaðartillögur þeirra ganga út á það að veita ekki fjármagn í fangelsi, til dómstóla eða neinna þeirra stofnana sem þurfa þó að taka á hruninu þegar sérstakur saksóknari hefur lokið störfum. Því spyr ég hv. þm. á hvaða villuvegi hún er og hvernig stendur á því að hún sjái sig knúna til þess að standa hér upp og skamma aðra þingmenn fyrir, að hún heldur, þröngsýni?