138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[14:57]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Heldur finnst mér viðkvæmni 8. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður vera mikil í þessari umræðu. Ég beindi orðum mínum ekkert sérstaklega til hennar. Hún hefur hins vegar kosið að taka því svo að ég hafi sérstaklega verið að ræða um hana og sérstaklega verið að ala hana upp. Ég var bara alls ekkert að gera það. Ég talaði almennt um tiltekna hv. þingmenn (VigH: Hverjir eru það?) — tiltekna hv. þingmenn. Ég kýs ekkert sérstaklega að nefna þá á nafn, en það er augljóst að sumir eru viðkvæmari fyrir þessari umræðu heldur en aðrir og svo sem ekkert við því að gera.

Varðandi þær spurningar sem hv. þm. beindi til mín, þá held ég að fjárlagafrumvarpið og sú fjárlagagerð og þær niðurskurðartillögur og tekjuöflunartillögur sem þar eru sýni glöggt þær áherslur og þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur í fjárlagagerðinni og í fjárlagafrumvarpinu. Þar er byggt á ákveðinni forgangsröðun. Þar er verið að taka sársaukafullar og oft og tíðum mjög erfiðar ákvarðanir. En það er nú einu sinni þannig, ágætu hv. þingmenn sem eru inni í þessum sal, að til þess erum við kosin að sýna hér kjark og dug og taka stundum ákvarðanir sem eru ekkert sérstaklega þægilegar eða skemmtilegar. En það er nú einu sinni hlutverk okkar þingmanna þó að sumir hv. þingmenn kjósi að líta ekki þannig á.