138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:08]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að ræða mín fyrr í umræðunni hefur fallið í nokkuð grýttan jarðveg hjá sumum tilteknum hv. þingmönnum í þessum sal, þó ekki öllum. Ég held hins vegar að við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson séum mjög sammála um fjárlagagerðina, af því nú erum við farin að tala um fjárlagagerðina í tengslum við það mál sem hér er til umræðu. Hann þekkir það auðvitað sem sveitarstjórnarmaður að það eru erfiðir tímar og erfitt er að koma saman bæjarsjóðunum um þessar mundir, að láta allt stemma. Það er nákvæmlega eins með ríkissjóð, það er erfitt að láta allt stemma svo vel sé. Og það eru ýmsar óþægilegar ákvarðanir sem þarf að taka, bæði á sveitarstjórnarstigi og eins hérna. Síðan er þetta alltaf spurning um pólitíska forgangsröðun.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort ég teldi eðlilegt að það störfuðu fleiri hjá Ríkisútvarpinu en hjá löggæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ég get í sjálfu sér ekki kveðið upp úr með það, ég þekki það tiltekna dæmi ekki. Hins vegar held ég að sé ákaflega mikilvægt og hollt fyrir okkur að fara einmitt með þeim gagnrýnu gleraugum í gegnum allt fjárlagafrumvarpið og forgangsraða í eitt skipti fyrir öll.

Ég átti sæti í hv. fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili og við gerðum heiðarlega tilraun þá að vinna fjárlagafrumvarpið með þeim hætti, það tókst því miður ekki. Ég vona að hrunið síðasta haust hafi ýtt aðeins við mönnum í breyttum vinnubrögðum og það kallar auðvitað nákvæmlega á það sem hv. þingmaður var að segja, að menn skoði tilteknar stofnanir og meti það raunverulega hvort þörfin sé þar en ekki annars staðar, það er bara sameiginlegt verkefni allra þingmanna hvar í flokki sem þeir standa.