138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert launungarmál að menn höfðu uppi um það áform þegar aðskilnaður varð að breyta þessu kerfi mjög umtalsvert. Af því varð ekki vegna þess að menn sáu að sér og áttuðu sig á því að mikilvægi dómstóla úti á landi er gríðarlegt. Ég hvet menn til þess að fara varlega í þessu og jafnvel þótt það sé mismunandi álag á dómstólum víða um land, þá er það nú svo á þeim stöðum utan Reykjavíkur að það er mismunandi álag á alls konar opinberri þjónustu þar. En mikilvægi grunnþjónustu af þessum toga, vegna þess að réttarkerfið er nú einu sinni grundvallarstoð í samfélaginu, er umtalsvert. Hér erum við að tala um vöggu réttarríkisins þegar við horfum til dómstólanna. Mér finnst það vera skylda okkar og ég lít alla vega svo á gagnvart allsherjarnefndinni, að menn verði að fara mjög rækilega í þetta, ekki ana að neinu en fara rækilega yfir málið.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort leitað hafi verið samráðs við dómarafélagið um þessa ráðagerð, hvernig því samstarfi var háttað. Ég veit að samstarf var haft við dómstólaráð, enda hafa þeir umtalsverð völd samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir.