138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni stærra mál en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Hér er í rauninni verið að taka ákvörðun sem rædd var, eins hefur komið fram í umræðunni, þegar aðskilnaðurinn átti sér stað árið 1992, og mig langar til að lesa upp úr greinargerðinni með því frumvarpi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með tilkomu héraðsdómstólanna má reikna með því að aukinn fjöldi dómsmála verði útkljáður utan Reykjavíkur, en nú eru allmörg mál, sem eiga uppruna sinn utan höfuðborgarsvæðisins, dæmd fyrir dómstólum í Reykjavík, með samkomulagi aðilja um varnarþing hvað einkamál varðar, en samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara hvað opinber mál varðar. Gera má ráð fyrir að lögmenn muni í auknum mæli finna sér starfsgrundvöll í nágrenni starfandi héraðsdómstóla og að aukin þjónusta á sviði dómgæslu muni styrkja byggðina utan höfuðborgarsvæðisins.“

Það er akkúrat þetta sem lögmenn og dómarar óttast með tilkomu þessara laga, að um leið og búið er að færa allt miðstýringarvaldið til höfuðborgarsvæðisins muni starfsgrundvöllur lögmanna víða á landsbyggðinni hverfa og fólk verður að sækja sér slíka þjónustu í auknum mæli til Reykjavíkur.

Ég ætla að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún óttist þetta ekki. Í annan stað vil ég spyrja — það er rétt eins og hér hefur komið fram að mismikið álag er á dómurum landsins. En þá er spurning: Þarf að fara þessa drastísku leið eða mætti ekki bara senda einfaldlega mál á milli dómstólanna og ná fram hagræðingunni á annan hátt? Og erum við ekki einfaldlega — ef til stendur að ná fram einhvers konar hagræðingu er þetta ekki allt of óverulegur sparnaður sem næst fram með þessum aðgerðum vegna þess að maður getur ekki séð að laun dómstjóra ein og sér séu til þess (Forseti hringir.) fallin að farið verði í þessar breytingar?