138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða mín var ekki haldin með það í huga að agítera fyrir landsbyggðinni sérstaklega. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt fyrir landið allt að starfandi séu dómstólar úti um allt land. Ég held að það sé mjög mikilvægt líka að starfandi séu lögmenn úti um allt land þannig að íbúar, hvar sem þeir búa, þurfi ekki að leita langt yfir skammt þegar þeir þurfa á slíkri þjónustu að halda.

Málflutningur minn gekk fyrst og fremst út á það að ég get ekki séð að hér sé um einhverja hagræðingu að ræða. Mig langar að spyrja þingmanninn á móti: Sér hann einhvern hag í því fyrir dómskerfið almennt að miðstýringarkerfið, að allt ákvörðunarvald sé fært til dómstólaráðs til að mynda, vegna þess að það er akkúrat það sem málið snýst um, sem á svo að hagræða í rekstri? Eins og ég ítrekaði og sagði í ræðu minni, sporin einfaldlega hræða.

Varðandi það að dómarar úti á landi væru með færri verkefni á sinni könnu sagði ég það ekki í ræðu minni. Ég sagði hins vegar að verkefni dómara almennt væru mismunandi og álag dómara almennt er mismunandi. Álag dómara innan Héraðsdóms Reykjavíkur er misjafnt. Sumir hafa mikið að gera, og þá skiptir máli hvort menn eru í sakamálum eða einkamálum. Ef hægt er að jafna þetta álag þannig að um sambærileg verkefni sé að ræða er hægt að gera það innan núverandi kerfis. (Forseti hringir.) Það var einfaldlega þetta sem ég benti á.