138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir spurningu hans og svör. Það er alveg rétt að það er sjónarmið að hugsanlega sé hægt að hagræða á einfaldari hátt þegar um einn héraðsdóm er að ræða. Okkur greinir á um þetta atriði og um það snýst þetta mál í mínum huga vegna þess að ég tel það ekki hollt fyrir þjóðina að færa allt miðstýringarvald á einn stað á landinu og vil benda á að jafnvel þó að við séum fámenn þjóð búum við í afar stóru landi.

Af því að manni er gjarnan stillt upp sem einhverjum landsbyggðarpotara vona ég að málið fari ekki í þann farveg. Ég held einfaldlega að við þurfum að gæta að réttaröryggi allra borgara landsins. Í mínum huga yrðu þetta skref sem geta leitt til þess að réttaröryggi borgara sem búa víðs fjarri höfuðborgarsvæðinu skerðist. Við sem búum í réttarríki þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, og við höfum góða dómara almennt séð, eigum að gæta þess að það verði ekki á nokkurn hátt skert.

Af því að ég á hérna aðeins aukatíma ætla ég enn á ný að brýna þingmenn allsherjarnefndar að skoða þetta mál vandlega, hvort verið sé að stíga skref í rétta átt eða hvort þetta sé einfaldlega eitt af þeim málum sem eftir málefnalega umræðu verður tekið til baka og endurskoðað (Forseti hringir.) og flutt þá þegar betri sátt næst um það. (ÞrB: Besta ráðið … dómskerfinu …)

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja um þögn í salinn.)