138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:35]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka framsögu hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra. Ég mun skoða þetta mál sem nefndarmaður í allsherjarnefnd með jákvæðum hætti og opnum huga. Ég leggst ekki gegn því fyrir fram að einn héraðsdómstóll verði á landinu. Ég tek undir orð hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, það kann að vera að þessu fylgi ekki mikill sparnaður. En ég hygg, út frá minni reynslu sem lögmaður, að þetta muni auka skilvirkni innan kerfisins, faglegt öryggi, samræmdari afgreiðslur í dómsmálum og margt fleira í þeim dúr, og skilvirknin skiptir okkur gríðarlegu máli í þeim málafjölda sem er að mæta okkur.

Ég vil líka segja, því að menn hafa haldið því fram að starfsstöðvar úti á landi, sem ég vel að merkja tel gríðarlega mikilvægar út frá landsbyggðarsjónarmiðum, og tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að með góðum samgöngum, ég tala ekki um rafrænum samgöngum, og breytingum í dómskerfinu sem taka tillit til þeirra, þá gæti ég sem lögmaður starfað hvarvetna á landinu. Það er ekki vandamál en dómstólarnir þyrftu að taka þessa nýju rafrænu tækni upp, nota hana til hagræðingar. En fyrst og fremst sé ég að þarna getur skapast fagleg skilvirkni og þar með hagræðing.

Ég set hins vegar spurningarmerki við ákveðna þætti í frumvarpinu sem ég vil skoða ærlega og það er ákvæðið um að færa valdsviðið í jafnríkum mæli og gert er til dómstólaráðs, þ.e. skv. 1. gr. ákveður dómstólaráð hvar héraðsdómur hefur fastar starfsstöðvar. Þetta er síðan ítrekað í 3. gr. og svo aftur í 10. gr. Ég get svo sem fullkomlega tekið undir það sem hér hefur komið fram, að ég átta mig ekki á því og vildi sjá hvar þessar starfsstöðvar ættu að vera — dómsvaldið að þessu leyti opið hvað varðar skipan þess um landið allt. Þetta hef ég oft rætt áður í ræðustól Alþingis, um það sem ég kalla framsal löggjafarvalds, og við bætist að dómsmálaráðuneytið framselur reglugerðarvald sitt og framkvæmdarvald sitt til undirstofnunar. Ég geld varhuga við því og hef ævinlega gert, jafnt í stjórnarandstöðu sem stjórn.

Ég vil skipa málum með lögum og tel rétt að staðsetning starfsstöðva héraðsdómara, þinghár, verði eins og kostur er ákvarðaðar í lögum. Það skapar að mínu mati meiri festu og meira réttaröryggi. Veigamiklar ákvarðanir, teknar af dómstólaráði, geta haft áhrif á landsbyggðinni og skipta máli vegna þess að þessi óhjákvæmilega þjónusta á auðvitað að vera sem næst fólkinu, hvort sem það býr í Reykjavík, Akureyri, Höfn í Hornafirði eða Vestmannaeyjum. Það á rétt á því að hafa alla þá þjónustu sem nauðsynleg er sem næst sínum heimahögum. Það er mín grundvallarsýn og ég hef ferðast eins og aðrir landsbyggðarþingmenn um mitt kjördæmi, eina 1.300 kílómetra í síðustu viku, og þar eru áhyggjur af þessum þætti og þær eru réttmætar. Mér hefur oft fundist þingið skiptast svolítið í tvennt. Ég verð að segja að mér finnst skorta skilning ýmissa þingmanna á hagsmunum landsbyggðarinnar. Ég hef stundum orðað það þannig, og það er kannski fullmikið sagt, að menn hugsi ekki austur fyrir Elliðaárnar en það er nú einu sinni svo að þennan skilning skortir.

Það er líka þannig að í stjórnarskránni, af því að ég nefni þetta, að ég vilji festa skipan dómsvaldsins í lög, þ.e. hvar starfsstöðvarnar eru, hvar þinghárnar eru o.s.frv. — að 59. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um að skipun dómsvaldsins verði eigi ákveðin nema með lögum og ég er á því að stjórnarskráin eigi að njóta vafans þarna, að það eigi að ákvarða þetta með lögum. Þar með er ekki sagt að sú hugsun sem liggur á bak við þetta og sú hugsun sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra leggur upp með komist ekki fullkomlega til skila. Það er ég ekki að segja. Ég vil bara ákveða mikilvægustu pósta ríkisvaldsins með lögum, almenningur gangi að því en ég vil ekki eiga undir ákvörðunum fjarlægs stjórnvalds sem heyrir undir hæstv. ráðherra, það er mín meining.

Ég skoðaði þetta líka heildstætt eins og hér hefur komið fram, bæði varðandi dómara, sýslumenn og lögreglustjóra, og þar hagar öðruvísi úti á landsbyggðinni t.d. með sýslumenn og lögreglustjóra í litlum embættum sem ég hefði viljað að ynnu saman þó að þeir gætu unnið sundur í Reykjavík með sjálfstæða lögreglustjóraembættið. Ég hef líka haft á orði að halda eigi því verkefni áfram sem farið var af stað með 2007, að færa verkefni út á land í krafti rafrænna samskipta. Það var leitast við að gera það með aðskilnaði lögreglustjóra og sýslumanna 2007 og sumt tókst — eða þessi flutningur tókst allur vel. Það eru gríðarlega mörg verkefni. Ég get alveg séð fyrir mér að dómstólaráð sitji í Vestmannaeyjum eða á Höfn með rafrænum samskiptum. Af hverju ekki? Af hverju þurfa tugir starfsmanna á Hagstofu Íslands allir að starfa í Reykjavík? Svona mætti lengi telja. Ef menn eru að spara út frá rafrænum samskiptum á skattstofum og annað þá verða menn að hugsa í báðar áttir. Rafræn samskipti eru ekki bara frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur, þau eru líka til baka. (Gripið fram í.) Það má hugsa það þröngt.

Almennt séð vil ég festa mikilvægustu ákvæði okkar stjórnarskipunar og réttarvörslukerfis í lög og fyrir því mun ég beita mér. Ég hygg hins vegar, að því er varðar dómsmálaráðuneytið, og ég tek undir það hrós sem hæstv. ráðherra hefur fengið fyrir að taka starf sitt alvarlega í sparnaði, en ég get sagt það að ég og fleiri nefndarmenn í allsherjarnefnd viljum líta á þetta heildstætt út frá ekki bara skipan dómstóla heldur sýslumanna, réttarvörslukerfisins og löggæslunnar í heild sinni og ég hygg, miðað við það flóð mála sem óhjákvæmilega mun koma fram — og það hefur verið nefnt að nú eru skilanefndirnar að ljúka störfum sínum og taka ákvarðanir um kröfur og annað slíkt þessar vikurnar og mánuðina — að úr því munu spretta einhver fleiri hundruð kærumál.

Það er líka óhjákvæmilegt að upp úr búskiptum, gjaldþrotaskiptum stórra þrotabúa, sem ég ætla ekki að nefna á nafn en menn þekkja, hér eru stór atvinnufyrirtæki í gjaldþrotaskiptum. Upp úr þeim búskiptum munu spretta ótal mörg kærumál. Þessi kærumál skilanefndanna mun reka á fjörur héraðsdómstóla núna í desember, janúar, febrúar og til Hæstaréttar í vor og sama gildir um ágreiningsmál út af gjaldþrotaskiptum. Við þetta bætist síðan sú einlæga von mín að sérstakur saksóknari muni verða afkastamikill í störfum sínum. Þar kemur fjöldinn allur af málum og þau eru erfið, efnahagsbrotin eru erfið. Þau eru kannski ekki svo erfið réttarfarslega eða lögfræðilega. Þau eru kannski erfið vegna þess að þeir sem svara þar til saka hafa fjármuni til að verja sig með öðrum og ítarlegri hætti en gengur og gerist með hinn venjulega Íslending, almúgamanninn, og það er Baugsmálið stærsta dæmið um. Þetta er reynsla allra annarra þjóða í stórum efnahagsbrotamálum. Þetta hef ég sjálfur reynt sem lögmaður í stórum efnahagsbrotamálum. Það er öllu velt þar við, öllum formsatriðum og allt sett upp á borð, jafnvel ótækum formsatriðum, en það er öllu velt áfram, þannig að við stöndum frammi fyrir gríðarlega erfiðu verki og hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra er ekki í öfundsverðu hlutverki.

Ég vona einlæglega, og ég held að það verði gert, að ríkisstjórnin taki þetta mál upp heildstætt. Ef það verður ekki gert núna blasir við að taka þurfi fjárveitingar til réttargæslukerfisins upp í fjáraukalögum á næsta ári. Af þessu hef ég áhyggjur en ég hef ekki áhyggjur af því að sameina héraðsdómstóla í einn svo fremi að starfsstöðvar verði úti á landi og þær tryggðar með lögum og þá þess vegna með svipuðum hætti og er í dag.