138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:47]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég notaði orðin „hvar sem er á landinu“. Ég hóf störf sem lögmaður árið 1981 og hætti 2007 þegar ég var kosinn á þing. Um það leyti voru öll samskipti við lögmenn farin að gerast í gegnum tölvupósta og rafræn samskipti og annað í þeim dúr. Menn hafa líka mætingamenn fyrir sig við dómstóla og þar fram eftir götunum. Ef ég skipulegg mig vel get ég starfrækt lögfræðiskrifstofu á Kirkjubæjarklaustri eða hvar sem er.

Breyta þarf lögum eða reglugerðum og það varðar aðallega hin skjallegu samskipti lögmanna eða sakborninga, eða sækjenda ef menn sækja sín mál sjálfir — sönnunargildi skjala og sönnunargildi tölvupósta og þar fram eftir götunum, það þarf að hagræða því.

Ég vil taka fram, af því að hv. þingmaður nefndi alræðisvald dómstólaráðs, að dómstólaráð er ekki mjög gömul stofnun og hefur reynst ákaflega vel svo að því sé haldið til haga. Sú stofnun hefur stuðlað að framþróun dómstóla, hún hefur stuðlað að skilvirkni, hún hefur stuðlað að ákveðinni samhæfingu. En ég er andsnúinn því að framselja löggjafarvald, það er það sem ég er fyrst og fremst að hugsa um — ég vil ekki að dómstólaráð fái vald til að ákvarða hvar starfsstöðvar þessa sameinaða héraðsdóms verða heldur verði það ákveðið í lögum. Ég held að það skapi festu sem er trygging og það er ekki það mikið mál, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, að breyta lögum og ákveða nýja skipan. Ég vil að þetta liggi á borðinu og hvar þeir starfi á landinu þannig að við höfum það fyrir okkur áður en þetta frumvarp verður að lögum.