138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:51]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að ekki séu vandkvæði á því að gera rafræn samskipti þannig að réttaröryggi sé tryggt. Það þarf að breyta einhverjum reglum þar að lútandi sem ég er ekki með á hraðbergi. Ég get bara nefnt það sem dæmi að í héraðsdómum eru mál þingfest með viðveru lögmanns eða þess sem sækir sök eða verst. Í Hæstarétti hefur þetta verið aflagt. Öll samskipti Hæstaréttar við lögmenn eru í gegnum póstsendingar eða boðsendingar. Eina skiptið sem lögmaður hittir Hæstarétt og dómarana fyrir er í dómsal við aðalmeðferð þannig að ég get alveg séð það fyrir mér að geta póstsent mín skjöl með ábyrgðarpósti og annað slíkt fyrir dómstólana og þessar mætingar geti lagst af eða farið inn á rafrænt form en það er fyrst og fremst framlagning skjala sem um er að ræða.

Ef allir dómstólar væru fluttir til Reykjavíkur held ég að réttaröryggi yrði fyrir borð borið, en ég skil frumvarpið ekki þannig. Ég skil það ekki þannig að það sé tilgangur hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra að slíkt verði. En ég vildi sjá það geirneglt í lögum hvar þessar starfsstöðvar verða. Þar er ég ekki að bregða fæti fyrir þetta frumvarp, þvert á móti. Það er út af þeim skoðunum mínum að festa þetta í lög.

Flytjist dómstólarnir allir til Reykjavíkur mun það hafa ruðningsáhrif á landsbyggðinni, það er alveg ljóst í mínum huga. Ég hef oft sagt að í slíkum tilvikum ætti að fara fram mat á samfélagsáhrifum, breytingum á stjórnsýslu og öðru slíku. Mat á samfélagsáhrifum felst m.a. í því að skoða ruðningsáhrif annarrar atvinnustarfsemi og fleira í þeim dúr og það að kostnaður færist frá ríkisvaldinu yfir á almenning.