138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:54]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég styð meginefni frumvarpsins og vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir góða vinnu sem og hennar fólki. Við eigum að nota aðstæðurnar núna til að endurmeta útgjöld ríkisins og hagræða þar sem hægt er. Það er þannig í tilviki héraðsdómstólanna en með þessu frumvarpi er náttúrlega upp að einhverju marki — ég heyri að ráðherra gerir smáathugasemd við þetta. En það er ekki bara verið að hagræða heldur er fyrst og fremst verið að skýra hina faglegu stjórn sem er jákvætt.

Það hefur farið fram góð umræða í dag, mörg sjónarmið komið fram, sem ég tel að þurfi að skoða. Sérstaklega má nefna það sem hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir og Atli Gíslason hafa vakið máls á, þ.e. hver ákveður staðsetningu dómstólanna eða starfsstöðvanna verðandi sem ég tel rétt að allsherjarnefnd skoði sérstaklega vel. En ég vil samt gjalda við því varhuga að óljós byggðapólitík verði notuð sem meginsjónarmið við skoðun á þessu. Þar hljóta fagleg gæði að skipta mestu og ég vil rifja upp að hér er meginmarkmiðið að jafna álag á dómstólana eða starfsstöðvarnar verðandi.

Það er mikilvægt að hagræðingin sem frumvarpið snýst um komi ekki niður á faglegum gæðum, enda er það ekki þannig og breytingarnar miða að því að auka sveigjanleikann svo að kraftar dómaranna nýtist betur. Þá þarf mögulega síður að fjölga héraðsdómurum vegna þess álags sem nú er á dómskerfinu og er fyrirsjáanlegt og hér liggur misskilningur stjórnarandstöðunnar svolítið í dag, einmitt í því hvort spara eigi í krónum eða hvort nýta eigi kraftana betur.

Frú forseti. Ég vil leggja mikla áherslu á hve miklu skiptir að héraðsdómarar hafi rými til að sinna starfi sínu, m.a. af því að íslenska dómskerfið virkar þannig að mat á sönnunum fer í raun bara fram þar, sönnunarfærsla, vitnaleiðslur o.s.frv., fer ekki fram fyrir Hæstarétti og enn hafa góðar hugmyndir um millidómstig sem tekur á því vandamáli ekki náð fram að ganga. Ég vil minna á að mat á sönnunum ræður oft úrslitum í flóknum málum. Það blasir kannski við á þessum tíma að nefna fjármunabrot og hlutverk dómstólanna þar en ég vil ekki síður nefna kynferðisbrot þar sem öflug og hröð málsmeðferð skiptir sköpum. Þarna er ég að vísu bara að tala um sakamálin sem eru lítið brot af þeim málum sem dómskerfið fæst við.

Frú forseti. Til að draga þetta saman: Ég held að Íslendingar hafi á undanförnum árum gert sér ljóst hve mikilvægt dómskerfið okkar er. Þar bera héraðsdómstólar hitann og þungann og mér finnst augljóst að dómsmálaráðherra geri sér góða grein fyrir því nú þegar hún leggur fram frumvarp sem snýst ekki bara og snýst alls ekki um niðurskurð heldur um betri nýtingu fjármuna og meiri fagleg gæði.