138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan varaði ég mjög alvarlega við því að verið væri að flytja þetta mikla vald til dómstólaráðs og tel raunar að það komi ekki til greina að ákveða skipulag dómstólanna í landinu með öðrum hætti en að gera það með lögum.

Nú heyrði ég að hv. varaformaður allsherjarnefndar tók í raun undir þetta sjónarmið mitt og ég fagna því. Þetta er burðarmesta atriðið í frumvarpinu, þ.e. að frumvarpið gengur í raun og veru út á það að færa þessi miklu völd sem Alþingi hefur áður haft, þ.e. hvernig dómstólaskipulaginu er háttað, til dómstólaráðs og dómstólaráð geti síðan ákveðið hvernig eigi að skipuleggja dómstólana í landinu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann og hv. formann allsherjarnefndar hvort hún geti ekki tekið undir þau sjónarmið að það sé röng stefna sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins, sem er meginstefna frumvarpsins, að færa þetta vald svona altækt yfir til dómstólaráðs. Hvort ekki sé eðlilegra að Alþingi ákveði það með lögum hvernig eigi nákvæmlega að skipa þessum málum. Hæstv. ráðherra opnaði á að það væri eðlilegt að skoða þetta atriði sérstaklega, sem eru auðvitað dálítil tíðindi því að þetta er það sem frumvarpið gengur út á. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að menn séu strax farnir að endurskoða frumvarp sem verið er að mæla fyrir. Hæstv. ráðherra talaði raunar um að til greina gæti komið að færa þetta inn í ráðuneytið.

Ég vil spyrja hv. þingmann og formann allsherjarnefndar hvort ekki sé eðlilegra að þessum málum sé skipað með lögum þannig að það skapist ákveðin festa og formfesta í kringum skipulag dómstólanna því að við hljótum að vera a.m.k. sammála um það, þó að við séum kannski ósammála um ýmsa aðra hluti, að um þessi mál megi ekki gilda nein lausung, það verði að gilda mikil festa, formfesta, og að eðlilegast sé að tryggja það með lögum hvernig skipulag dómstólanna verði.