138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er mín daufa heyrn eða hinn dapri skilningur sem hefur valdið því að ég hef ekki tekið nægjanlega vel eftir því sem hv. þingmaður sagði. Það er þá gott að með því að ítreka það ofan í tossana hver skilningurinn er liggi það þá alla vega fyrir. Það eru út af fyrir sig heilmikil tíðindi þá að gerast í þessari umræðu.

Hér er sem sagt lagt fram frumvarp sem hefur það að megintilgangi að reyna að tryggja aukna hagræðingu að sagt er, og um það er mikill ágreiningur, og í annan stað, sem er burðarmesta ákvæði frumvarpsins sem er það að skipulag dómstólanna skuli ekki lengur ákveðið með lögum heldur með því að dómstólaráð fái það vald.

Nú heyrist mér að það sé að myndast mikil pólitísk samstaða um að hverfa frá meginstefnu frumvarpsins strax við 1. umr. þess. Hæstv. ráðherra opnaði á möguleikann á því að gera breytingar með tilteknum hætti. Hv. formaður allsherjarnefndar og hv. varaformaður allsherjarnefndar eru þeirrar skoðunar að vel komi til greina eða jafnvel eigi að skipa þessum málum með lögum. Ég tek undir það. Ég tel að það eigi að skipa þessum málum með lögum. Því vænti ég þess að gerð verði þessi grundvallarbreyting á lögunum sem síðan negli það niður að skipulag dómstólanna verði sem minnst breytt frá því sem nú er.