138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur nú þegar fengið nokkuð ítarlega umfjöllun við 1. umr. og hafa komið fram mjög margar athugasemdir við það, sem ég er sammála hv. formanni allsherjarnefndar um að við þurfum að taka gaumgæfilega til meðferðar í nefndinni.

Í andsvörum milli þeirra hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar var nokkuð rætt um einn þátt þessa máls sem er spurningin um hvort valdið til að setja dómstólunum ramma eða velja þeim starfsstöðvar og ákveða þar með dómstólaskipanina í landinu eigi að vera hjá þinginu eða dómstólaráði. Út frá því, ef við nálgumst málið eingöngu út frá hagræðingarsjónarmiðinu, þá kann að vera rétt hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að það skipti ekki endilega máli hvorum megin ákvörðunarvaldið liggur. En ég hygg hins vegar að það sé frá stjórnskipulegu sjónarmiði eðlilegra að þetta vald liggi hjá þinginu, að það sé Alþingi sem taki grundvallarákvarðanir varðandi þessar mikilvægu stofnanir sem dómstólar eru. Ég held að við megum ekki gera lítið úr þeirri stóru stefnubreytingu sem felst í frumvarpinu að þessu leyti þar sem ákvörðunarvald hvað þessi atriði varðar er fært frá þinginu til tiltekinnar stjórnsýslunefndar. Vandinn við ákvarðanir sem liggja hjá stjórnsýslunefndum er auðvitað sá að miklu erfiðara er að kalla slíkar nefndir til ábyrgðar fyrir það sem þær ákveða og gera heldur en kjörna fulltrúa. Kjörnir fulltrúar þurfa reglulega að leita umboðs hjá kjósendum sínum og ráðherrar sem starfa í umboði þingmanna þurfa að svara fyrir það gagnvart þinginu. Gagnvart hverjum svara stjórnsýslunefndir sem eiga að vera sjálfstæðar í störfum sínum? Hvernig geta kjósendur haft aðkomu að sjálfstæðum stjórnsýslunefndum? Þetta vandamál er ekki bara bundið við þetta, langt í frá, heldur vandamál sem er miklu víðar í kerfinu þar sem við höfum á forsendum faglegra sjónarmiða eins og það er alltaf kallað fært vald frá kjörnum fulltrúum til sjálfstæðra stjórnsýsluaðila, en vandinn er alltaf þessi: Gagnvart hverjum eiga þessar sjálfstæðu stjórnsýslustofnanir, aðilar eða nefndir að svara? Það er þáttur sem ég hef áhyggjur af og þess vegna strax veldur það mér verulegum áhyggjum ef stefnan er sú að færa valdið frá þinginu í þessum efnum og til stjórnsýslunefndar, hversu ágætir menn og konur sem þar kunna að sitja hverju sinni. Ég held að þetta sem prinsippákvörðun sé verulegt umhugsunarefni.

Varðandi það hvort rétt sé að ráðast í breytingar á skipan héraðsdómstóla yfir höfuð hef ég svolítið sveiflast til og frá með það. Ég held að það fyrirkomulag sem hér var komið á í kjölfar þeirra miklu breytinga sem urðu á dómstólaskipan og öðrum þáttum upp úr 1990 hafi reynst ágætlega en auðvitað er það ekki fullkomið kerfi og ekki hafið yfir það að vera tekið til endurskoðunar og ég tel að full ástæða sé til að skoða það. En ég velti því hins vegar fyrir mér hvort skynsamlegt sé að fara í grundvallarbreytingar á dómstólaskipaninni í einhverjum spreng í tengslum við fjárlagaumræðu og mundi fagna því ef það væri gagnkvæmur skilningur manna að afgreiðsla málsins verði ekki bundin við þetta haustþing og þar af leiðandi við fjárlagaafgreiðsluna heldur liggi það fyrir að allsherjarnefnd geti tekið sér betri tíma til að fara yfir málið þannig að við séum ekki, eins og er með svo mörg mál sem hafa tengingu við fjárlagafrumvarpið, í einhverjum spreng núna í nóvember og byrjun desember að gera þetta. Þetta er grundvallarbreyting á dómstólaskipaninni í landinu og við eigum að fara varlega í því. Það er svo einfalt.

Hæstv. dómsmálaráðherra tók þá skynsamlegu ákvörðun um daginn að draga úr hraðanum ef svo má segja varðandi breytingar á fyrirkomulagi sýslumanna. Ég held að það hafi verið mjög skynsamlegt. Það þýðir ekki að breytingar á fyrirkomulagi sýslumanna geti ekki komið til eða menn muni hætta að vinna að þeim breytingum. Ég held að það geti vel komið til greina að gera slíkar breytingar. Þær þurfa hins vegar góðan undirbúning, þær þurfa vandaðan undirbúning og hæstv. dómsmálaráðherra hefur tekið ákvörðun um að fara með málin í þann farveg og raunverulega finnst mér alveg sömu rök eiga við um þá dómstólabreytingu sem hér er verið að leggja á ráðin með.

Það eru verulegar breytingar sem felast í frumvarpi þessu og tíminn til jóla er til þess að gera mjög skammur. Miðað við starfsáætlun þingsins á þingið eftir að starfa í fimm eða sex vikur. Hv. allsherjarnefnd, sem er mjög öflug nefnd og vel mönnuð þó ég segi sjálfur frá, er með fjöldamörg önnur málefni á sínum snærum og sínu borði þessa dagana. Það er því alveg ljóst að tíminn til að afgreiða þetta mál á þeim vettvangi er mjög knappur.

Hvað varðar málið sjálft á þessu stigi — við ræðum þetta í allsherjarnefnd þegar þessari umræðu lýkur — hef ég þegar nefnt að frumvarpið felur í sér að ákvörðunarvald varðandi veigamikla þætti í dómstólaskipaninni er fært frá þinginu og yfir til þessarar ágætu stjórnsýslunefndar, sem enginn má misskilja mig að ég ætli að gera eitthvað lítið úr, en hún er það, stjórnsýslunefnd, sem ekki þarf að svara gagnvart neinum. Dómstólaráð er ekki til svara gagnvart þinginu. Við getum ekki kallað á dómstólaráð í þingsal og krafist spurninga. Dómstólaráð getur að vísu komið á nefndarfundi, það hefur upplýsingagildi en ekki neitt annað. Hæstv. dómsmálaráðherra á hverjum tíma getur vísað til þess að dómstólaráð sé sjálfstætt í ákvörðunum sínum þannig að við getum ekki í þinginu barið á dómsmálaráðherra vegna ákvarðana dómstólaráðs sem við erum ósátt við. Það er galli á því fyrirkomulagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Önnur atriði sem hér hafa verið nefnd, auðvitað gerir frumvarpið ráð fyrir aukinni miðstýringu á héraðsdómstigi. Það er ekki um annað að ræða. Í stað átta sjálfstæðra stofnana er verið að búa til eina stofnun sem lýtur einni stjórn. Verið er að auka miðstýringu að þessu leyti.

Hagræðingin er þess eðlis að það er sjálfsagt og eðlilegt og nauðsynlegt að meta hvar hagræðingu er hægt að ná fram í hinum opinbera rekstri. Ég dreg ekki í efa að einhvers staðar í dómstólakerfinu kann að vera möguleiki á hagræðingu. Spurningin er hins vegar sú: Hvaða hagræðingu á að ná fram með þessu frumvarpi? Það er ekki skýrt í frumvarpinu hvaða hagræðing það er. Það er ekki af hálfu ráðuneytisins lögð fram nein áætlun um hvaða hagræðingu á að ná fram. Við höfum engar upplýsingar um það til að byggja á í þessari umræðu hvernig hagræðingin á að skila sér miðað við frumvarpið. Það er bara sagt að þarna er verið að búa til tæki til að taka ákvarðanir sem geta leitt til hagræðingar, en við vitum ekki hvernig ætlunin er að ná hagræðingunni fram. Við höfum alla vega mjög óljósar hugmyndir og þar af leiðandi mjög óljósar hugmyndir um hversu mikilli hagræðingu er hægt að ná fram. Ef við samþykkjum frumvarpið erum við að taka ákvörðun án þess að hafa grundvallarupplýsingar um málið.

Síðan vildi ég að lokum, af því að ég geri ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra komi í ræðustól aftur, velta því upp, ég rakst ekki á það í frumvarpinu sjálfu hvernig frumvarpið hefði áhrif á stöðu dómara og starfsfólks við héraðsdómstólana. Svo ég hugsi upphátt þá hygg ég að dómararnir muni sjálfkrafa allir halda stöðum sínum vegna þess að þeir eru skipaðir af ráðherra og ekki starfsmenn dómstólanna sem stofnana, en ég hygg að starfsfólkið sé ráðið til stofnananna sem slíkra, héraðsdómstólanna. Ef ég skil málið rétt þá felur þetta frumvarp í sér að verið er að leggja niður átta héraðsdómstóla til að stofna einn nýjan og þá er spurning: Hvernig hefur verið hugsað út í stöðu starfsfólks að þessu leyti? Ég sá ekki neitt um það í frumvarpinu.

Ég vil að lokum segja þetta: Ég held eins og í svo mörgu geti verið gott og æskilegt og nauðsynlegt að fara í endurskoðun en hins vegar þegar við erum með mikilvægar og viðkvæmar stofnanir er dálítið erfitt ef málin eru lögð upp með þeim hætti að nauðsynlegt sé að taka grundvallarákvarðanir í tímapressu vegna fjárlagaafgreiðslu þegar nauðsyn breytinganna er í sjálfu sér ekki alveg á borðinu, liggur ekki fyrir. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort við getum ekki sammælst um það, við gerum það sjálfsagt ekki í 1. umr. um málið, við þurfum að ræða það í allsherjarnefnd, að málið fái þann tíma sem það þarf. Við getum nálgast það fordómalaust og opið. Þetta er hugmynd sem er, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, ekki alfarið ný af nálinni. Hún hefur verið rædd áður. En að taka svona grundvallarákvarðanir um dómstólana í landinu í tímapressu rétt fyrir jólin þegar yfir okkur vofa afgreiðsla fjárlaga og önnur stór mál, ég hef ekki góða tilfinningu fyrir því að setja málin í þann farveg.