138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:47]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þetta frumvarp hér í dag og ætla að koma inn á nokkur atriði. Spurt hefur verið hvort ekki sé hægt að spara einhvern veginn öðruvísi en lagt er upp með í frumvarpinu. Það má örugglega alltaf spara með ákveðnum hætti, hægt er að minnka útgjöld á ýmsa vegu.

Það kostar að senda mál á milli dómstóla, það er aukinn ferðakostnaður fyrir lögmenn og vitni. Það blasir ekki við hvernig þar á að spara mikinn kostnað. Ég bendi líka á að aðstoðarmenn dómara eiga samkvæmt frumvarpinu að geta sinnt útivistarmálum og töluverð hagræðing felst í því að þeir geti gert það, eins og ég kom inn á í framsögu gera þeir það þá í nafni og á ábyrgð dómara en engu að síður geta þeir þá sinnt þessum málum.

Hvað varðar dómstólaráð — sú spurning kom fram hvort leggja ætti dómstólaráð niður. Ég held að hafa verði í huga þrígreiningu ríkisvaldsins og það að hlutverk dómstólaráðs er töluvert víðtækt gagnvart dómurum. Þar fer fram samræming og eftirlit og eins og fram kom í máli hv. þm. Atla Gíslasonar hefur dómstólaráðið reynst vel. Ef það yrði lagt niður yrðu einhver hlutverk færð til ráðuneytisins sem ég held að sé afturför.

Síðan er það hitt hversu mikið ákvörðunarvald dómstólaráð á að hafa. Komið hefur verið inn á það hér í dag að það sé of víðtækt, þarna sé verið að leggja til að löggjafinn leggi of víðtækt vald í hendur dómstólaráðs. Það má t.d. sjá fyrir sér að ráðherra gefi út reglugerð að tillögu dómstólaráðs, það er hægt að sjá það fyrir sér — ef vilji þingsins stendur til þess að festa þetta niður í lögum þá er það gott og vel. Ég held að þetta verði bara að ræða því að í mínum huga snýr meginefni frumvarpsins að því að verið er að leggja til að átta stofnanir verði sameinaðar í eina stofnun og ég ætla aðeins að fara betur ofan í forsöguna og röksemdirnar fyrir því.

Í erindi dómstólaráðs til mín 11. febrúar sl. kemur fram að dómstólaráð hafi boðað dómstjóra til fundar 26. janúar og að farið hafi verið yfir rekstrarstöðu dómstólanna og málafjölda og þá hafi líka verið rætt um hugmyndir dómstólaráðs um sameiningu héraðsdómstóla. Hér kemur fram að hugmyndir dómstólaráðs hafi notið stuðnings.

Ég ætla að lesa hér beint upp úr bréfinu, með leyfi forseta:

„Að fella niður dómþinghár sem eru utan skrifstofu dómstólanna. Með því móti má spara talsverðan kostnað vegna ferða dómstjóra en ekki síst tíma þar sem miklum tíma er varið í ferðir á þessar dómþinghár. Voru dómstjórar sammála um að reynslan sýndi að þessar dómþinghár væru í rauninni tímanna tákn og bæri að leggja niður.

2. Í ljósi málafjölda og fjölda dómara á Norðurlandi til samanburðar við Suðurland var rætt um kosti þess að sameina dómstólana á Norðurlandi í einn. Sameinaður dómstóll á Norðurlandi næði reyndar ekki þeim heildarmálafjölda sem Héraðsdómur Suðurlands býr nú við. Með þessu móti mætti jafnvel flytja eitt stöðugildi dómara á Suðurlandi og jafna þar með álag á milli dómstóla. Sameinaður dómstóll fyrir Norðurland mundi leiða til verulegs sparnaðar í rekstri dómstólanna.

Þá var rædd hugmynd um að sameina héraðsdómstólana í einn dómstól með sjö til átta skrifstofur, þ.e. á þeim stöðum sem dómstólarnir eru á nú, nema til komi sameining Héraðsdóms Norðurlands eystra og vestra. Með því móti mætti ná fram verulegu hagræði í rekstri. Í því sambandi má nefna að stöðugildi dómstjóra eru í heildina metin sem 2,15 stöðugildi til þess að sinna stjórnun. Ef aðeins yrði einn dómstóll og einn dómstjóri í fullu starfi sem stjórnandi mætti nýta eitt stöðugildi dómstjóra í dómarastöðu. Þá er ljóst að hagræða mætti með því að vinna bókhald á einum stað en það er nú gert á níu stöðum svo og símsvörun svo dæmi séu nefnd. Þessa þætti mætti eftir atvikum flytja út á landsbyggðina ef heppilegt þykir.“

Bréf þetta var ritað vegna þess að hagræðingarkrafa var gerð til dómstólanna í lok síðasta árs sem átti að ná til þessa árs. Þar var sem sagt ákveðið að fjárveitingin til héraðsdómstólanna yrði lækkuð um 50 millj. kr. Það kemur fram að mjög erfitt var fyrir héraðsdómstóla að verða við þeirri kröfu í ljósi þess að um 98% fjárveitinga til héraðsdómstóla eru bundin í launum og húsnæði. Þarna kemur því fram að dómstólaráð ræddi með dómstjórum mögulegar leiðir til þess að nota peningana betur til þess að hagræða þannig að nýta mætti þær fjárveitingar sem til ráðstöfunar voru. Ég get ekki annað séð en að þetta séu skynsamlegar hugleiðingar og tillögur hjá dómstólaráði og núna þegar við bætist aukin hagræðingarkrafa og niðurskurður til dómstólanna virðist þetta ekki vera síður brýnt.

Hvað varðar starfsfólk dómstólanna, það kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að störf starfsmanna dómstóla verði flutt yfir til héraðsdóms og í greinargerðinni kemur fram að gert er ráð fyrir að öll þessi störf flytjist þá yfir í nýja stofnun eins héraðsdóms.

Ég fékk þá spurningu áðan hvernig ég sæi fyrir mér framtíð dómstólanna og ég verð að segja að héraðsdómstólar, sem sagt héraðsdómstigið sem ein stofnun með starfsstöðvum víða um land — þar sem fagleg rök liggja líka til þess að dómarar séu þá ekki einir og sér á skrifstofu sinni, þeir eru þá partur af stærri heild, því að sú nálgun kom vissulega fram hér áðan að dómari á að geta sinnt öllu. Ég held, virðulegi forseti, að það sé mjög mikil krafa á dómara og ekki síst nú eftir bankahrunið. Það er mikil þörf á endurmenntun og sérþekkingu sem þeir þurfa að sinna. Ég tel því að dómarar sem hluti af einni stofnun — það gæti stuðlað að því að byggja upp faglega þekkingu þeirra.

Ég ætla að koma aðeins inn á bakvaktirnar en gert er ráð fyrir því að þeim verði sinnt frá færri stöðum en nú er þannig að þar mundi líka liggja sparnaður.

Ég ætla, virðulegi forseti, að ljúka máli mínu með því að kynna það sem ég bar upp í ríkisstjórn í morgun og það eru áhyggjur dómstólaráðs og Hæstaréttar af því aukna álagi sem fyrirsjáanlegt er út af bankahruninu. Það er alveg ljóst að ég tel að framkvæmdarvaldið sem ein grein ríkisvaldsins geti ekki hunsað það ákall sem felst í erindi dómstólaráðs og Hæstaréttar og því ákvað ég að bera þetta ákveðna álitaefni upp við ríkisstjórn. Dómstólaráð segir að mörg mál séu í farvatninu, að tímabundið þurfi að fjölga dómurum um fimm og aðstoðarmönnum um fimm, og Hæstiréttur segir að hann sé vart í starfhæfu ástandi nema hann fái 16 milljónir til viðbótar við rekstrarfé sitt. Alls eru þetta 106 milljónir sem liggja ekki á lausu. Því höfum við í dómsmálaráðuneytinu skoðað hvort efni séu til þess að hækka dómsmálagjöld, sem hafa ekki hækkað í háa herrans tíð eða frá 1991, þingfestingargjaldið er t.d. 3.900 kr. Þetta gæti verið ein leið til þess að sýna fram á innstreymi á móti útgjöldunum.

Ég gert ekki orða bundist yfir því að menn ræða hér um að þetta séu vanhugsaðar sparnaðaraðgerðir og látið er í veðri vaka að ekki þurfi að spara. Ég hef gengið út frá því að það verði að skera niður og út frá því er gengið í fjárlagafrumvarpinu. Þetta frumvarp er komið til vegna þess að menn sáu fram á að þurfa að hagræða, ekki það að frumvarpið ætti að geta mætt hverri og einni niðurskurðarkröfu sem kæmi á hverjum og einum tíma, það er langt frá því. En ég tel að þegar sérstakt erindi kemur frá dómsvaldinu um að það sé ekki í stakk búið til að annast þann málafjölda sem er á leiðinni í kjölfar bankahrunsins, bæði einkamál og sakamál, verði að bregðast við því og upplýsi ég þingheim hér með um það.