138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[18:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þessi orð hæstv. ráðherra liggja fyrir þær hugmyndir sem hér búa að baki. Í frumvarpinu kemur fram að það er til komið vegna erindis eða álits dómstólaráðs. Af máli hæstv. ráðherra má greina að hugmynd dómstólaráðs sé sú að sameina þessa dómstóla á Norðurlandi og jafnframt að fella niður þinghá utan dómstóla og það mun hafa þær afleiðingar sem ég var að tala um. Þjónustan í þessu héraði, þ.e. á Norðurlandi, mun versna sem því nemur. En þetta er mál sem greinilega á að ræða frekar.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra tók undir það að skipan dómstólanna eigi ekki að ákvarðast af hálfu dómstólaráðs eins og frumvarpið gerir ráð fyrir — það er einn burðarmesti þáttur þess. Hæstv. ráðherra tekur undir eða lokar a.m.k. ekki á þann möguleika sem pólitísk samstaða er greinilega orðin um hér á þinginu að þessum málum verði skipað með lögum þannig að Alþingi ákveði hversu margir dómstólar eiga að starfa í landinu. Það er auðvitað eðlilegt fyrirkomulag.