138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[18:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það má segja að hæstv. dómsmálaráðherra hafi haldið ákveðinni spennu í þessari umræðu alveg til loka, eða þegar við héldum að málinu væri að ljúka, vegna þess að þau tíðindi sem komu fram í lok ræðu hennar hér áðan eru auðvitað stórmerkileg. Eftir því sem við skiljum best þá hefur ráðherra flutt inn í ríkisstjórn beiðni frá dómstólaráði um tímabundna fjölgun dómara og auknar fjárveitingar til dómstóla til þess að mæta bráðavanda sem nú er kominn til og verður fyrirsjáanlegur á næstu mánuðum og missirum. Ég held að þetta sé alveg í takti við það sem hefur verið rætt hér í þessum sal fyrr í dag þó að það hafi ekki beinlínis snúið að þessari beiðni eða þessu tiltekna máli. Það hefur endurspeglast hér í ræðum þingmanna mikill vilji til þess að gera dómstólana færa eða tryggja að þeir hafi bolmagn til þess að fjalla með eðlilegum og vönduðum hætti um þau fjölmörgu mál og þann mikla málafjölda sem fyrirsjáanlega mun koma til þeirra í tengslum við þær miklu efnahagslegu hremmingar og bankahrun sem við höfum verið að ganga í gegnum, bæði einkamál sem stafa af gjaldþrotum og skuldauppgjörum ýmiss konar og eins sakamálum sem hugsanlega koma út úr starfi embættis sérstaks saksóknara sem nú þegar hefur reynst miklu umfangsmeira, eða þær rannsóknir sem það embætti hefur með höndum, en hægt var að segja með nokkurri vissu fyrir í upphafi, þó reyndar sé rétt að halda því til haga að þegar allsherjarnefnd fjallaði um þau mál á sínum tíma, fyrir rúmu ári, þá gátu menn þess, allsherjarnefndarmenn og raunar ráðherrar líka, að þarna væri mikil óvissa fyrir hendi og vera kynni að umfang þeirra mála sem upp kæmu yrði mikla meira en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þá kom jafnframt fram vilji þingmanna sem þá tjáðu sig til að styrkja og efla þá þætti réttarkerfisins sem hefðu þessi mál með höndum. Þá var á borðinu tillaga um embætti sérstaks saksóknara. Það lá alltaf fyrir sá vilji þingmanna að styðja auknar fjárveitingar til þess embættis ef á þyrfti að halda. Það hefur ekki staðið á því, ekki hefur staðið á þinginu að veita fjármuni til þessara mála. Það hefur verið fullur vilji til þess, enda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við það, þó um hafi verið að ræða aukafjárveitingar til þess embættis hygg ég oftar en einu sinni á þessu ári og það er mikilvægt að það komi fram.

Sama á auðvitað við um þetta. Eins og bent hefur verið á í þessari umræðu enda mál frá saksóknara mörg hver fyrir dómstólum. Einnig hefur verið vakin athygli á þeim fjölda einkamála sem þessu fylgir, þannig að ég held að ég tali fyrir munn a.m.k. allmargra þingmanna þegar ég segi að dómsmálaráðherra hefur alveg örugglega mikinn stuðning hér í þinginu við það að fara fram á auknar fjárveitingar til dómstóla af þessum sökum. Dómstólaráð hefur gert ákveðnar tillögur í þessu sambandi sem ég hef reyndar ekki haft tök á að kynna mér, en hljóta að vera grundvöllur einhverrar umræðu um þetta.

Vandinn er alla vega fyrir hendi. Það þarf að bregðast við honum og það þarf að bregðast við honum skjótt. Og þarna er ekki um að ræða hverja aðra fjárveitingu til hverrar annarrar starfsemi í landinu. Dómstólarnir eru grundvallarstoð í réttarríkinu, grundvallarstoð í því samfélagi sem við búum í og þeir verða eftir því sem best verður á kosið að vera í stakk búnir að leysa vel og réttilega úr þeim málum sem til þeirra koma og án þess að mál lendi í óhæfilegum drætti sem getur orðið til þess að skaða málsmeðferðina, skaða hagsmuni, bæði opinberra aðila og þeirra sem í hlut eiga. Þetta er því alveg gríðarlega mikilvægt mál sem dómsmálaráðherra hefur hér vakið athygli á, en ég hef fyrirvara varðandi hugmyndir um dómsmálagjöldin. Það má spyrja ráðherrann hvort dómsmálagjöldin leggist ekki (Forseti hringir.) einmitt á þá sem síst skyldi, skuldara og aðra slíka.