138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[18:16]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að það er ekki mjög til vinsælda fallið að leggja til hækkun gjalda en ég tel samt, þar sem þessi gjöld hafa ekki tekið neinum hækkunum frá 1991, að óhætt sé að líta aðeins á þau mál.

Dómsmálagjöld hér á landi eru samkvæmt könnun okkar, við þurfum að athuga það mun betur reyndar, mun lægri en í nágrannalöndum okkar og jafnvel þar sem það getur verið miðað við prósentu af stefnufjárhæð, þar sem þingfestingargjald getur hlaupið á allstórum upphæðum eftir því hvaða hagsmuni er um að tefla. Þetta verður að skoðast með ákveðinni varúð líka en við töldum við þá skoðun að það væri eiginlega alveg sjálfgefið að gera þetta, vegna þess að dómstólarnir eiga við ákveðinn vanda að glíma, þ.e. sá vandi er í uppsiglingu og við því verður að bregðast áður en illa fer.