138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir ræðu hennar. Hér er um að ræða mál sem er ekki alveg nýtt af nálinni. Það kom til 1. umr. í sumar og gekk til allsherjarnefndar. Þó að það fengi ekki efnislega umfjöllun í allsherjarnefnd sendi nefndin það til umsagnar og fjöldamargar umsagnir bárust. Ég geri ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra hafi kynnt sér þær umsagnir. Ég ætla því að biðja hæstv. dómsmálaráðherra að gefa til kynna hvort þær umsagnir hefðu almennt séð falið í sér stuðning við frumvarpið, hvort mikil fagnaðarlæti hefðu borist frá umsagnaraðilum vegna frumvarpsins, alla vega þannig að hún mundi aðeins gera grein fyrir því hvaða viðbrögð málið fékk. Ég held að það hafi verið sameiginlegur skilningur okkar flestra hér í sumar að málið væri lagt fram til kynningar en fyrir lá að það yrði ekki útrætt. Að minnsta kosti er það mín upplifun eftir að hafa kynnt mér þessar umsagnir að frumvarpið hafi ekki fengið það sem við getum kallað glimrandi undirtektir.

Annars ætlaði ég að geta þess áður en umræðan fer lengra að í greinargerðum, almennum athugasemdum við bæði þessi frumvörp, kemur fram að samráðshópur var skipaður á vordögum þar sem fulltrúar m.a. þingflokka og Sambands sveitarfélaga fengu aðkomu að málinu. Ég vil taka það fram og tel að það hafi átt við um alla sem þar sátu að það kom skýrt fram af minni hálfu í því starfi að við tókum ekki efnislega afstöðu til þessa máls á því stigi og þátttöku okkar í þessum undirbúningi má ekki skilja svo að við höfum stutt málið eða berum ábyrgð á því. Þetta er mál ríkisstjórnarinnar.