138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra gat þess að skoðanir hefðu verið skiptar meðal umsagnaraðila. Það er rétt að því leyti að ég held að einn umsagnaraðili hafi stutt málið fyrirvaralaust af þeim sem á annað borð tóku afstöðu til málsins, sumir voru eingöngu með tæknilegar athugasemdir eins og yfirkjörstjórnir og slíkir aðilar. Ég man eftir umsögn frá Landssambandi eldri borgara, sem var almennt séð jákvæð, aðrar umsagnir voru býsna neikvæðar. Þær voru eitthvað á þriðja tuginn ef ég man rétt. Það kann að vera að mér hafi sést yfir eitthvað í því sambandi, en staðan var alla vega sú að þeir umsagnaraðilar sem tjáðu sig um málið, sem sáu ástæðu til að senda allsherjarnefnd umsögn í haust, voru, að Landssambandi eldri borgara undanteknu, neikvæðir í garð þessara breytinga á misjöfnum forsendum og komu með misjafnar athugasemdir og þess háttar. Það er svolítið sérkennilegt, og ég er ekki að áfellast dómsmálaráðherra sérstaklega, heldur ríkisstjórnina almennt, að ríkisstjórnin skuli koma með mál óbreytt inn í þingið sem fær jafnslæmar viðtökur og þetta hjá þeim sem menn sáu ástæðu til að leita til.

Nú kann vel að vera að ekki hafi verið leitað til réttu umsagnaraðilanna. Það getur vel verið. Það var nú samt sem áður frekar opið. Ef ég man rétt sendi allsherjarnefnd frumvarpið út og suður og var ekki að sortera út þá sem ættu að fá þetta, fyrir svo utan það að þeir sem áhuga hafa á málinu geta að jafnaði sent athugasemdir inn til nefnda þó að þeir séu ekki sérstaklega beðnir um það. Þessi viðbrögð gera mann svolítið undrandi yfir því að ríkisstjórnin skuli koma með málið óbreytt inn, en gott og vel, við í allsherjarnefnd erum ekkert feimin við að taka þetta mál til umfjöllunar, en verk ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) í þessu er samt sem áður dálítið sérstakt.