138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:44]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst forvitnilegt að hlusta á þær bollaleggingar sem það mikla sjarmatröll hv. þm. Pétur Blöndal, sem hefur mikinn kjörþokka, viðhafði um persónukjör. En ég gat ekki betur heyrt en hv. þingmaður væri að rugla saman prófkjöri og persónukjöri. Þetta eru gjörólíkir hlutir. Prófkjör er blóðugur slagur um að troða sér sem fremst á lista hjá ákveðnum stjórnmálaflokki eða hreyfingu. Persónukjör er lýðræðislegt vald sem kjósandanum er fengið í hendur til að velja sér þá þingmenn eða þá frambjóðendur sem honum hugnast. Ég fyrir mitt leyti get ekki skilið það, og ég ætla ekki að sætta mig við það fyrr en í fulla hnefana, að menn sem hafa komist áfram í pólitík af eigin rammleik, af eigin hæfileikum, eins og hv. þm. Pétur Blöndal að mínu mati, skuli ekki taka hressilega undir það með mér að opna frelsi, verslun, viðskiptafrelsi almennings. Núna hefur almenningur leyfi til að fara í eina verslun og kaupa það sem honum sýnist, en hann má ekki versla í annarri verslun, bara í Krónunni eða Bónus. Skilurðu? Af hverju megum við ekki versla bæði í Krónunni (Forseti hringir.) og Bónus og kaupa bestu hlutina á hvorum stað, ódýrustu?